Fréttir

Meiri sala og afkoma í takt við áætlanir á árinu 2007

Velta Norðlenska á árinu 2007 var röskir 3,2 milljarðar króna, sem er nokkru meiri velta en áætlanir gerðu ráð fyrir. Salan var meiri en gert var ráð fyrir, einkum var áberandi aukning í sölu á síðari hluta ársins.

Reksturinn yfir væntingum
"Rekstur Norðlenska á árinu 2007 stefnir í að verða heldur betri en áætlað var, bæði í sölu og afkomu. Ég tel að sú stefna okkar að auka vörugæði í framleiðslu fyrirtækisins hafi skilað okkur betri ímynd inn á markaðinn. Salan hefur aukist í öllum vörutegundum og í raun hefðum við getað selt meira, en okkur vantaði einfaldlega hráefni. Það var skortur á nauta- og grísakjöti allt síðasta ár," segir Sigmundur E. Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska.
"Við höfum á undanförnum árum og misserum verið að bæta okkar rekstur með hagræðingu á öllum sviðum og það hefur skilað sér. Að hluta höfum við tekið á okkur hækkun sem hefur orðið á gripum og því hafa þær ekki að fullu farið út í verðlagið til neytenda. Engu að síður erum við að sjá batnandi rekstur í fyrirtækinu, sem er mjög ánægjulegt. Það er alltaf hægt að gera betur og við munum halda áfram að leita hagræðingar á öllum sviðum í rekstrinum, en engu að síður höfum við nú þegar náð mjög góðum árangri.
Við erum þessa dagana að ljúka gerð áætlunar fyrir árið 2008 og samkvæmt henni gerum við ráð fyrir óverulegum breytingum í rekstrinum miðað við síðasta ár. Við teljum að töluverð óvissa sé núna á kjötmarkaði. Fóður hækkaði á síðasta ári og nú liggur fyrir 5-7 prósent hækkun á því til viðbótar. Sömuleiðis munu koma fram hækkanir á áburði á vordögum. Við munum taka á með framleiðendum varðandi þessar hækkanir og það mun að sjálfsögðu koma að einhverju leyti við okkar rekstur. Það er ljóst að hækkun á kornverði helgast m.a. af því að margar þjóðir eru farnar að nýta kornið til framleiðslu á eldsneyti, svokölluðu líf-dísel."

Horfur fyrir 2008
Hvað horfur fyrir þetta ár varðar segir Sigmundur að framboðið á nautgripum til slátrunar hafi heldur verið að aukast og því megi vænta að jafnvægi náist á nautakjötsmarkaðnum á árinu. Ekki sé að vænta aukningar í svínakjötsframleiðslunni, raunar hafi einn framleiðandi á þessu svæði, Arnarfellsbúið í Eyjafjarðarsveit, hætt rekstri. Hins vegar séu svínabændur á svæðinu að kanna möguleikann á stækkun búa sinna. "Það er ljóst að að við munum ekki sjá aukningu í framboði á svínakjöti hér á þessu ári og það er áhyggjuefni, enda þyrftum við, ef vel á að vera, að fá töluvert meira svínakjöt. Við leggjum áherslu á að sinna okkar föstu viðskiptavinum, en skortur á svínakjöti hamlar frekari vexti í sölu á svínakjöti, sem við teljum að við hefðum alla möguleika á.
Varðandi lambakjötið tel ég að sé töluverð óvissa. Útflutningsskyldan mun detta út eftir þetta ár. Sú spurning vaknar hvernig við því verður brugðist, því til þessa hafa verið flutt út um 1200 tonn af lambakjöti árlega, sem eru umfram neyslu á innanlandsmarkaði. Sala á lambakjöti hefur eilítið verið að gefa eftir á síðustu mánuðum. Ein af ástæðunum fyrir því tel ég vera að neytendur gera síaukna kröfu um að fá fullunna vöru. Tíminn sem fer í að elda á heimilum landsins er alltaf að verða styttri og því er í auknum mæli gerð krafa um hálftilbúna eða tilbúna rétti. Lambið hentar ekki eins vel til þess að mæta þessum kröfum eins og til dæmis svína- og kjúklingakjöt. Auðvitað er stöðugt í gangi vöruþróun í lambakjötinu til þess að mæta þessum auknu kröfum markaðarins, en það má segja að lausnirnar séu ekki auðfundnar. Sem dæmi má nefna að á pizzastöðunum fer lítið fyrir lambakjöti. Nautahakkið hefur skapað sér hefð ofan á t.d. pizzurnar og þeirri hefð verður ekki svo auðveldlega breytt. Sú áhersla hefur verið nokkuð ríkjandi að selja lambakjötið í hlutuðum skrokkum og núna þegar þróunin á markaðnum er hröð í þá átt að neytendur vilji hálftilbúna eða tilbúna rétti virðist lambakjötið sitja eftir. Þrátt fyrir þetta tel ég að ef rétt er á málum haldið í vöruþróun og markaðsmálum muni tími lambakjötsins koma, enda er það hollustuvara. Lambið lifir nær eingöngu á villtum gróðri í úthaga, þ.e. ekki á ábornum túnum, og þessi staðreynd tel ég að muni skipta máli þegar til lengri tíma er litið. En vaxtarhraði lambsins er auðvitað mun lengri en í t.d. hvíta kjötinu og þess vegna verður það alltaf dýrara í framleiðslu.

Útflutningsmál
Norðlenska hefur sem kunnugt er dregið sig út úr útflutningi á Bandaríkjamarkað, enda gekk hann einfaldlega ekki vegna sterkrar stöðu gagnvart dollar. "Við fáum hins vegar ítrekaðar fyrirspurnir frá Bandaríkjunum um kjöt, en við treystum okkur ekki til þess að verða við óskum um útflutning á þann markað að óbreyttri stöðu dollars. Við höfum hins vegar verið að flytja út á aðra markaði. Færeyjar hafa til dæmis reynst góður markaður. Færeyingar nýta stóran hluta af sínu lambakjöti í vinnslu á skerpikjöti og því þarf að anna eftispurn þar eftir hefðbundnu lambakjöti. Hins vegar er Færeyjamarkaður lítill og vaxtarmöguleikar takmarkaðir. Í Noregi hefur framleiðsla á lambakjöti dregist saman og um leið hafa opnast þar möguleikar til útflutnings á viðunandi verðum. Þá höfum við flutt út töluvert af slögum til Bretlands, þar sem þau eru notuð í kebab."

Framleiðslueiningarnar munu stækka
Sigmundur telur að margt bendi til þeirrar þróunar í kjötframleiðslu að framleiðslueiningarnar muni stækka. Að sama skapi megi gera ráð fyrir að vinnslustöðvunum muni fækka, enda verði alltaf erfiðara og erfiðara fyrir minni sláturhús og kjötvinnslur að verða við kröfum markaðarins um fullunnar vörur og einnig að uppfylla reglugerðir og staðla, sem oftar en ekki eigi rætur að rekja til Evrópusambandsins.

Breytingar á eignarhaldi Norðlenska
Búsæld eignaðist Norðlenska að fullu undir lok ársins 2007, sem kunnugt er. "Í þessum breytingum á eignarhaldi tel ég að felist ýmis tækifæri fyrir fyrirtækið. Norðlenska kemur til með að vinna nánar með framleiðendum að auknum vörugæðum og að uppfylla kröfur markaðarins. Með því að Búsæld hefur eignast öll hlutabréf í Norðlenska verða tengsl framleiðenda við markaðinn nánari.
Á sínum tíma settu menn sér það markmið að Búsæld eignaðist Norðlenska að fullu. Margir höfðu efasemdir um að þessu markmiði væri unnt að ná og ég skal viðurkenna að við stjórnendur fyrirtækisins vorum efins, í ljósi þess hversu hratt fyrirtækið stækkaði, að bændum tækist að eignast allt rekstrarfélagið. En nú er það sem sagt í höfn.
Það ríkir traust á milli fyrirtækisins og bænda og til marks um það sýnir viðhorfskönnun sem við létum gera fyrir okkur meðal innleggjenda hjá Norðlenska, bæði þeirra sem eru samningsbundnir innan Búsældar og þeirra sem standa utan Búsældar, að meginþorri þeirra, eða yfir 90%, hafa jákvætt viðhorf gagnvart fyrirtækinu og hafa á því traust."
Nú eru um 530 bændur í Búsæld og eru þannig bundnir samningi um innlegg hjá Norðlenska. Alls voru innleggjendur hjá félaginu hins vegar um 700 á síðasta ári. "Innleggjendum hefur verið að fjölga og eftir að gengið var frá kaupum Búsældar á öllum hlutabréfum í Norðlenska finnum við fyrir auknum áhuga bænda á að koma að félaginu."
Hjá Norðlenska starfa 170-180 manns, þar af sem næst 110 á Akureyri, um 50 á Húsavík, 8 á Höfn og 6 í Reykjavík.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook