Fréttir

Allt gekk fullkomlega upp

Allt gekk fullkomlega upp í sláturtíðinni hjá Norðlenska á Húsavík, að sögn Sigmundar Hreiðarssonar stöðvarstjóra. Að þessu sinni var slátrað 76.318 fjár, nokkuð fleiri en í fyrrahaust en meðalþyngdin nú var örlítið lægri en fyrir ári.

Slátrun hófst að einhverju marki þetta haustið fimm dögum seinna en árið 2010. Helsta ástæða þess var að mjög víða var göngum seinkað, fyrst og fremst vegna þess tíðarfars sem var í vor og sumar og skapaði bændum bæði vandræði og óvissu hvað varðaði sauðburð, heyskap og fleira, segir Sigmundur.

Þrátt fyrir þessa seinkun í upphafi og fjölgun fjár, tókst að ljúka slátrun 27. október, sem er einungis einum og hálfum degi síðar en árið 2010

Sláturáætlun var sett upp með auknum sláturfjölda annan hvern dag miðað við undanfarin ár. Óhætt er að segja að þetta hafi gengið fullkomlega upp, með góðu skipulagi og virkilega góðum samskiptum út í sveitirnar, sem ég vil þakka okkar ágætu tengiliðum og  innleggjendum kærlega fyrir, ásamt harðduglegum flutningsaðilum, sem virkilega hafa lagt sig fram og skilað mikilli og góðri vinnu. Án þessa og þess góða starfsfólks sem við höfum hér væri þetta ekki gerlegt, segir Sigmundur.

Á Húsavík var slátrað þetta haustið 76.318 kindum, en til samanburðar má nefna að þær voru 75.437 árið 2010. Meðalþyngd í haust var 15,70 kg í stað 16,07 kg árið 2010, fita var núna 6,27 en 6,45 í fyrra og gerð var núna 8,23 á móti 8,48 í fyrra, þannig má sjá að skýrt samræmi er á milli þessara þátta, að sögn stöðvarstjórans.

Verkun þetta haustið, hélt áfram þar sem frá var horfið síðasta haust, var sem sagt algjörlega til fyrirmyndar og verkunargallar fóru einungis 4 daga yfir  1% og aldrei hærra en 1,5%. Lægst fóru gallarnir í 0,13% og sem dæmi þá má nefna að einungis 5 skrokkar voru bakrifnir þetta haustið. Þetta er auðvitað algjörlega með ólíkindum og gerist ekki nema með afburða starfsfólki sem hefur fagmennsku fyrst og fremst að leiðarljósi. Þetta er fyrirtækinu mikils virði og gaman var að heyra þá gesti sem komu til okkar í haust, tala um hve kjötið væri fallegt og hreint og eins og ég hef sagt áður, þá eiga neytendur bara það besta skilið og ekki síður sauðkindin sjálf,” segir Sigmundur.

Hann ítrekar þakkir sínar til starfsfólks og á það jafnt við þá sem unnu við hina eiginlegu sláturtíð sem og vinnslu, en þar höfum við á að skipa mjög sterkum hópi,” segir Sigmundur Hreiðarsson.

Að endingu lætur Sigmundur fljóta með eina vísu sem honum barst í sláturtíðinni, og honum finnst segja mikið:

Óskir mínar allar rætast

oft þó sýnist gatan treg,

þar sem greind og góðvild mætast

gengur allt á besta veg.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook