Fréttir

Fjörutíu þúsund sviðahausar

Eggert Sigmundsson. Mynd Morgunblaðið.
Eggert Sigmundsson. Mynd Morgunblaðið.

„Íslendingar eru fastheldnir þegar kemur að þorramat. Satt að segja veit ég því ekki hvort hljómgrunnur væri fyrir því að bæta nýjungum á borðið,“ segir Eggert H. Sigmundsson, vinnslustjóri Norðlenska á Akureyri í viðtali við sérblað Morgunblaðsins um Þorramat í dag.

Allt hverfist um þorramatinn í kjötiðnaðarstöð Norðlenska þessa dagana, segir Morgunblaðið. „Við hófum undirbúninginn strax í haust og þegar jólavertíðinni lauk tók þorramaturinn við,“ er haft eftir Eggerti sem hefur starfað hjá Norðlenska í um áratug og stýrt framleiðslu á Akureyri sl. sjö ár. Hann segir vinnslu á þorramat alltaf vera með föstu sniði, en heldur hafi þó þurft að auka við framleiðsluna síðustu árin. Greinilegt sé að ungum Íslendingum líki þessi gamla matarhefð vel og vilji halda í hana.

„Við byrjuðum strax eftir áramót að taka matinn úr mysunni – en til vinnslunnar tökum við alls fimmtíu tonn af henni. Hér vinna um 75 manns og ætli láti ekki nærri að helmingurinn sé í því núna að finna til þorramatinn og raða á bakkana, bæði súrmat og svo nýmeti, eins og til dæmis hangikjöti, magál og sviðasultu,“ útskýrir Eggert sem bætir við að mesta umstangið sé vegna sviðavinnslunnar. Þannig séu um 20 þúsund hausar teknir í sultu og annað eins borið fram.

„Þetta eru fjörutíu þúsund hausar alls og í vinnsluna sjálfa fara líklega um fjörutíu tonn af kjöti. Þetta er mikil vertíð í okkar starfsemi – og þar byggjum við á langri hefð og gæðum sem þjóðin þekkir,“ segir Eggert Sigmundsson að síðustu. 


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook