Fréttir

Slátruðu 505,8 kg nauti

Skrokkur stóra nautsins frá Breiðabóli.
Skrokkur stóra nautsins frá Breiðabóli.

Naut sem slátrað var hjá Norðlenska á Akureyri í vikunni vóg hvorki meira né minne en 505,8 kg. Bolinn, sem kom frá Guðmundi Gylfa Halldórssyni bónda á Breiðabóli á Svalbarðsströnd, var að hálfu franskur Limousine og hálfur Íslendingur. Þetta er með allra þyngstu nautum sem slátrað hefur verið hér á landi.

„Þeir hljóta bara að fá svona vel að éta hjá okkur,“ segir Guðmundur Gylfi á Breiðabóli. „Við höfum ræktað korn og gefum okkar kálfum það allt þeirra líf, og gefum þeim sérstaklega vel að éta síðustu 2-3 mánuðina fyrir slátrun,“ segir hann. „Við höfum náð mjög jafnri og góðri þyngd í kálfana okkar.“

Naut sem koma til slátrunar hjá Norðlenska eru að meðaltali 230-240 kg að þyngd að sögn Sigurðar Samúelssonar, verkstjóra í slátrun, þannig að þessi var rúmlega tvöföld meðalþyngd.

Kálfurinn sem slátrað var í vikunni, var 28 mánaða og tveggja vikna gamall. Móðirin er íslensk mjólkurkýr, sem sædd var með frönsku Limousine nauti.

Þetta var ekki í fyrsta skipti sem stór gripur kemur frá Breiðabóli til slátrunar hjá Norðlenska. Í mars 2009 var þar slátrað grip sem vóg 512,2 kg og um sumarið öðru sem var 505,4 kg. Sá fyrri var af Limousine kyni og sá síðari Angus, en mæðurnar íslenskar.

Ekki er loku fyrir það skotið að tveir stórir til viðbótar komi frá Breiðabóli innan skamms. „Ég er með þrjá hálfbræður þess sem slátrað var í vikunni og tveir þeirra líta mjög vel út. Þeir verða sennilega álíka þungir og þessi, ef ekkert kemur upp á,“ segir Guðmundur Gylfi á Breiðabóli.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook