Fréttir

„Aldurinn breytist og ummálið vex…”

Norðlenska ákvað á dögunum að gefa félögum í Búsæld vinnugalla. Svala Stefánsdóttir á skrifstofu Norðlenska á Akureyri sendi bændum póst þar sem hún bauð þeim gallana; Svala, sem er hagmælt eins og margir vita, sendi þeim erindið að sjálfsögðu í bundnu máli, og hefur nú fengið nokkur svör með sama hætti. Þetta er sannarlega skemmtilegt krydd í tilveruna.

 

Það sem Svala sendi bændum var svohljóðandi:

Eitthvað af göllunum góðu er til

í geymslu hjá mér.

Tvo á hvert býli bjóða ég vil

berist óskin frá þér.

 

Hún bauð bændum að koma á skrifstofuna eða hringja, ef þeir vildu galla.

 

Andrés bóndi Björnsson svaraði um hæl:

Sæl vertu Svala.

 

Frá búaliði bros þú færð

og bændur gerir sátta.

Fyrir mig er frábær stærð

fimmtíu og sex til átta.

 

Takk og bestu kveðjur.

Andrés Björnsson.

 

Þegar Svala spurði hvort Andrés vildi einn í 56 og annan í 58 svaraði hann svo:

 

 Aldurinn breytist og ummálið vex

svo allt virðist stefna hærra.

Ég festast vil ekki í fimmtíu og sex

og fæ mér því númeri stærra.

 

Steinn Jóhann Jónsson sendi Svölu þessa vísu:

 

Galla tvo ég gjarnan þigg,

því gott er hér í boði.

56 á feitum hrygg,

fylgir mínu roði.

 

Og frá Guðbrandi á Brúarlandi fékk Svala þessa:

 

Tvo galla ég gjarnan vil,

gott að vita að þeir eru til.

Örlætið þakka ég þér

þú færð beztu kveðju frá mér.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook