Fréttir

Fráleitt að Norðlenska „geymi” kjöt

Ingvar Már Gíslason
Ingvar Már Gíslason

Ingvar Már Gíslason markaðsstjóri Norðlenska mótmælir harðlega  málflutningi um stöðu á lambakjötsmarkaði að undanförnu. Meðal annars hafa forsvarsmenn stórra kjötvinnsla gagnrýnt hve lítið væri til af lambakjöti í landinu og nefnt m.a. Norðlenska í því sambandi og  haldið því fram að fyrirtækið „geymi” jafnvel kjöt sem Ingvar segir fráleitt. Ingvar segir  að í þessari umræðu virðist menn leika þann leik að sleppa mikilvægum atriðum sem ekki henti málflutningnum.

 

Ingvar er að vísa í viðtal sem Freyr Eyjólfsson átti við Leif Þórsson framkvæmdarstjóra Ferskra Kjötvara í Morgunútvarpi Rásar 2.

„Viðtalið sem slíkt var ágætt en því miður var enginn til andsvara þar sem Leifur dró upp heldur dökka mynd af stöðunni. Sjálfsagt er hún mjög erfið hjá hans fyrirtæki en því má ekki gleyma að Ferskar Kjötvörur verða að gera áætlanir eins og aðrir.  Það hefur Norðlenska gert með góðum árangri með stærstu viðskiptavinum þó við eigum fullt í fangi með að eiga lambakjöt í allar pantanir sem liggja fyrir, enda eftirspurn aukist gríðarlega, þar sem aðrir virðast ekki geta afhent það magn af lambakjöti sem þeir hafa lofað.  Fyrir mér lítur þetta út eins og menn séu að nýta ástandið til að þrýsta á um innflutning,“ segir Ingvar.

Misjöfn staða

Ingvar segir að vissulega hafi birgðastaða á lambakjöti oft verið betri á þessum tíma árs, um það bil mánuði fyrir hefðbundið upphaf sláturtíðar, en hún sé þó mjög misjöfn á milli sláturleyfishafa og misjafnt hvað hver eigi mikið og hvaða hluta lambsins. „Það er alveg ljóst að sum sláturhús hafa flutt mun meira af lambakjöti úr landi en æskilegt getur talist. Það er fyrst og fremst það sem býr til þetta óeðlilega ástand. Þessir aðilar virðast hafa flutt svo mikið út að þeir eiga ekki kjötið sem þeir voru búnir að lofa viðskiptavinum sínum. Það er hins vegar algjör firra að halda því fram að við geymum lambakjöt til síðari tíma, hagsmunir okkar felast í því að selja lambakjötið sem fyrst en jafnframt að tryggja framboðið á milli sláturtíða.“

Gríðarleg verðmæti

„Sauðfjársláturhúsin slátra á tímabilinu september – október á hverju ári. Það lambakjöt sem við kaupum af bændum á haustin, greiðum við þeim að fullu um miðjan desember. Í tilfelli Norðlenska er þetta yfir 1 milljarður, þennan ríflega milljarð fáum við að láni í banka, með afurðalánum og því fylgir tilheyrandi fjármagnskostnaður. Þetta eru gríðarleg verðmæti og mikil ábyrgð sem fylgir því að eiga viðskipti með lambakjöt. Einmitt þess vegna gerum við söluáætlanir strax að hausti, semjum við aðila á innanlandsmarkaði um hversu mikið magn af lambakjöti þeir vilja kaupa af okkur. Þarna er meðal annars um að ræða verslanir, veitingahús og aðrar kjötvinnslur.”Ingvar segir að á haustin sé skipulagt nákvæmlega hvað selji eiga af lambaskrokkum, lærum, hryggjum og öðrum bitum. „Út frá áætlun um sölu á innanlandsmarkaði ákveðum við hversu mikið við þurfum að flytja út. Við verðum að fá peninga til að greiða afurðalánin og það myndi kosta gríðarlega peninga að geyma kjötið ef ske kynni að einhver vildi kaupa það í lok ársins. Í tilfelli Norðlenska voru það 27% af slátruðu magni 2010 sem við fluttum út á tímabilinu september 2010 – júlí 2011. Mest af því magni eru heilir lambaskrokkar sem við flytjum út strax að hausti, þetta voru yfir 400 tonn síðastliðið haust. Að auki erum við að flytja út á ársgrunni yfir 300 tonn af lambaslögum, lambagörnum og lambabeinum. Svo geta menn komið ábyrgðarlaust fram í fjölmiðlum og sagt að bestu bitarnir séu fluttir úr landi,” segir Ingvar.

Íslenskir neytendur munu áfram fá okkar góða lambakjöt

Sala á lambakjöti hefur eins og fyrr segir gengið mjög vel síðastliðið ár en hvernig eru horfurnar

„Þetta lítur ákaflega vel út, Norðlenska hefur lagt gríðarlega fjármuni í að markaðssetja íslenskt lambakjöt undir vörumerki Goða og viðtökur neytenda hafa verið frábærar. Þá hefur sala á fersku lambakjöti stóraukist, bæði undir okkar  vörumerkjum og eigin vörumerkjum verslana.  Ég vil trúa því að á næsta ári muni þeir sem eru í vandræðum núna vanda sig betur, gera betri áætlanir fyrir fyrirtæki sín og láta innanlandsmarkað ganga fyrir. Að því gefnu mun framboð á lambakjöti verða stöðugt,“ segir Ingvar að lokum.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook