Fréttir

Hef miklar áhyggjur af stöðu íslensks landbúnaðar innan ESB

Sigmundur E. Ófeigsson.
Sigmundur E. Ófeigsson.
"Ég hef miklar áhyggjur af stöðu íslensks landbúnaðar, komi til aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Ég tel að við séum ekki vel undir það búnir að fara þarna inn. Mér virðist sem þeir sem ráði för í þessu eins og mörgum öðrum málum séu ekki tengdir við það sem er að gerast úti í hinum dreifðu byggðum landsins," segir Sigmundur E. Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska.

 

„Fyrirfram er erfitt að spá fyrir um áhrif ESB-aðildar Íslands, en það liggur þó fyrir skýrsla sem tekur mið af áhrifum aðildar Finnlands að Evrópusambandinu fyrir nokkum árum. Sú skýrsla gerir ráð fyrir lækkun á verði íslensks lambakjöts um 30-35%. Engu að síður er sagt að sauðfjárbændur muni koma best íslenskra bænda út úr aðild Íslands að ESB! Það liggur ljóst fyrir að með ESB-aðild Íslands verður hrun í innlendri framleiðslu á hvítu kjöti - kjúklinga- og svínakjöti - og þessar kjöttegundir lækka væntanlega í verði. Það myndi aftur þýða enn frekari neyslu á þessum tegundum og um leið samdrátt í neyslu annarra kjöttegunda - lamba- og nautakjöts."

Styrkjakerfi ESB
Stuðningsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu hafa sagt að styrkjakerfi ESB gæti nýst íslenskum landbúnaði vel, en Sigmundur segist ekki sjá betur en að styrkjakerfið stuðli að samþjöppun innan greinarinnar. Þannig njóti stærstu vinnslustöðvarnar innan Evrópusambandsins stærstu styrkjanna. Sem dæmi sé hið risavaxna matvælaframleiðslufyrirtæki Danish Crown í Danmörku einn af stærstu styrkþegum ESB-styrkja þar í landi, fyrirtækjasamsteypa sem slátri um og yfir 90% allra svína í Danmörku.

„Hér á landi hefur sauðfjárrækt og landsbyggðarstefna verið nátengd. Hvernig ætla menn að snúa sér í þessum efnum ef sauðfjárræktin leggst af? Hvaða áhrif hefur það á ferðamannaþjónustuna, sem er eins og kunnugt er vaxandi atvinnugrein, ef mikill fjöldi býla fer í eyði? Mér finnst að menn verði að horfa vel á þessa heildarmynd. Staðreyndin er sú að Ísland er komið hvað lengst í borgríkisþróun á Vesturlöndum og það yrði að mínu mati stórskaðlegt ef atvinnustarfsemi á landsbyggðinni yrði ógnað enn og aftur og þar með yrði ýtt enn frekar undir eflingu borgríkisins. Hvort sem það er viljandi eða óviljandi hefur ESB stuðlað að þessari þróun með því að ýta undir stórrekstur."

 

ESB-aðild yrði blóðtaka fyrir Akureyri

„Verði hrun í framleiðslu á svínakjöti með ESB-aðild er rétt að hafa í huga að það stendur að baki fjórðungi af veltu Norðlenska. Verði einnig umtalsverður samdráttur í lamba- og nautakjöti er ljóst að forsendur fyrir óbreyttum rekstri afurðasölufyrirtækis eins og Norðlenska myndu bresta. Ég tel að fyrir Akureyri væri ESBaðild mikil blóðtaka, enda byggir bærinn hvað mest hérlendra sveitarfélaga á landbúnaði. Hér eru tvö af þremur stærstu kjötvinnslufyrirtækjum landsins og sömuleiðis er hér stór mjólkurstöð. Allt eru þetta fjölmennir vinnustaðir með mikinn fjölda afleiddra starfa," segir Sigmundur.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook