Fréttir

Norðlenska fær vinnustaðakennslustyrk frá Samtökum iðnaðarins

Norðlenska er eitt sex fyrirtækja sem hlýtur svokallaðan vinnustaðakennslustyrk frá Samtökum iðnaðarins, en þetta er í fyrsta skipti sem slikir styrkir eru afhentir. Greint var frá styrkúthlutuninni í húsakynnum Norðlenska á Akureyri í dag. 

Samtök iðnaðarins hafa markað þá stefnu að veita árlega tíu milljónum króna til vinnustaðakennslu í fyrirtækjum,  sérstaklega í þeim greinum sem erfitt er að fá nema eða taka við nemum í vinnustaðakennslu.

Styrkúthlutun er tvisvar á ári, að þessu sinni komu til úthlutunar röskar fjórar milljónir króna. Tvö kjötvinnslufyrirtæki á Akureyri, Norðlenska og Kjarnafæði, hlutu hæstu styrkina að þessu sinni, rösklega 1,1 milljón króna hvort fyrirtæki. Önnur fyrirtæki sem hljóta styrk eru öll í prentiðnaði; Landsprent, Árvakur, Gutenberg og Oddi.  

Við úthlutun styrkja er áhersla lögð á nám í löggiltum og viðurkenndum iðn- og starfsgreinum á framhaldsskólastigi. Markmið Samtaka iðnaðarins með því að styrkja fyrirtæki til að taka nema í vinnustaðakennslu er:
1. Að hvetja stjórnvöld til að taka þátt í fjármögnun vinnustaðakennslu.
2. Að hvetja til þess að stofnaður verði starfsnámssjóður til að jafna kostnaði milli fyrirtækja sem taka nema í starfsþjálfun og þeirra sem ekki gera það.
3. Að hvetja fyrirtæki í þeim greinum, þar sem skortur er starfsfólki í tilteknar iðn- og starfsgreinar, að taka nema.

Ingi Bogi Bogason hjá Samtökum iðnaðarins segir að þau hafi undanfarin ár hvatt til þess að á vinnustaðakennslu yrði litið sömu augum og kennslu í skóla. „Við höfum undanfarin ár rætt það við menntamálaráðuneytið að koma á sérstökum vinnustaðakennslusjóði og samkvæmt orðum menntamálaráðherra virðist vera að komast hreyfing á þetta mál í ráðuneytinu. Til þess að liðka fyrir málinu og hraða því að fyrirtækin geti sótt sér stuðning í því að mennta starfsmenn sína á vinnustað, ákvað stjórn Samtaka iðnaðarins að verja á hverju ári, næstu árin, tíu milljónum króna til fyrirtækja sem eru að gera góða hluti á þessu sviði og vilja bæta sig enn frekar. Styrkirnir eru hugsaðir til þess að efla kennsluþáttinn hjá viðkomandi fyrirtæki," segir Ingi Bogi.

Í máli Katrínar Dóru Þorsteinsdóttur, starfsmannastjóra Norðlenska, við styrkveitinguna í dag, kom fram að á undanförnum árum hafi nemum í kjötiðnaði fækkað mjög. Sú ákvörðun stjórnenda Verkmenntaskólans á Akureyri sl. haust að bjóða á nýjan leik upp á kjötiðnaðarnám hafi verið mikilvægur þáttur í að snúa þróuninni við. Nú eru fjórir kjötiðnaðarnemar á fyrsta námsári hjá Norðlenska, einn á þriðja ári og einn kjötskurðarnemi er á lokaári. „Í okkar hópi eru áhugasamir starfsmenn sem ákváðu að hefja kjötiðnaðarnám, sem er mikið fagnaðarefni. Við bindum vonir við að á komandi misserum sýni fleiri áhuga á því að leggja þessa iðn fyrir sig. Stuðningur Samtaka iðnaðarins við vinnustaðakennslu fyrir kjötiðnaðarnemana er okkur afar mikilvægur," segir Katrín Dóra.

Katrín Dóra nefndi að af 180 starfsmönnum Norðlenska er röskur fjórðungur menntaður í matvælagreinum. Þar af eru 7 kjötiðnaðarmeistarar,  23 kjötiðnaðarmenn, 1 matreiðslumaður, 7 slátrarar, 3 kjötskurðarmenn og 6 nemar.

 Á myndinni hér að neðan eru Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og Katrín Dóra Þorsteinsdóttir, starfsmannastjóri Norðlenska. Fleiri myndir birtast hér sem voru teknar við þetta tækifæri í dag.               

jon_steindor_og_katrin_dora__minni

 

 folk_2__minni

 

folk_3__minni

folk_4__minni

jon_steindor__minni

 katrin_dora__minni


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook