Fréttir

Norðlenska gerir samning við InPro um heilsuvernd, heilsueflingu og fjarvistaskráningu starfsmanna

Þann 1. október sl. tók gildi samningur sem Norðlenska hefur gert við fyrirtækið InPro um heilsuvernd starfsmanna, heilsueflingu á vinnustað og fjarvistaskráningu. Til að byrja með gildir samningurinn um starfsmenn Norðlenska á Akureyri og í Reykjavík, en frá og með næstu áramótum tekur hann einnig til starfsmanna fyrirtækisins á Húsavík og Höfn.

InPro var stofnað árið 2004 og býður upp á heildarlausnir á sviði heilbrigðisþjónustu, vinnuverndar, heilsuverndar, heilsueflingar, símaráðgjafar, fjarvistaskráningar og fræðslu. Hjá InPro starfa hjúkrunarfræðingar, læknar, sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar, sjúkraliðar, sjúkraflutningamenn, verkfræðingar, iðnaðarmenn o.fl.

Samningurinn kveður á um ráðgjöf til starfsfólks Norðlenska í veikindum. Boðið er upp á trúnaðarlæknisþjónustu, símaráðgjöf um heilbrigðismál og heilsuvernd og mánaðarlega heilsupistla til starfsmanna með hvatningu og fræðslu um ýmis mál tengd heilsu og heilsuvernd. Ef starfsmaður forfallast vegna veikinda eða slyss ber honum að tilkynna InPro það á fyrsta virka fjarvistadegi og kemur slík skráning í stað læknisvottorðs til vinnuveitanda.

Boðið er upp á heilsufarsskoðun starfsmanna Norðlenska ásamt ráðgjöf til þeirra, þar sem áherslan er á að bæta andlega líðan þeirra og varna streitu. Einnig eru í boð innflúensubólusetningar og starfsmenn hafa endurgjaldslausan aðgang að heilsuvefnum doktor.is.

Katrín Dóra Þorsteinsdóttir, starfsmannastjóri Norðlenska, segist vera mjög ánægð með þennan samning og hún telur hann mikilvægan fyrir starfsfólk fyrirtækisins. "Markmið fyrirtækisins með þessum samningi er að bæta aðgengi starfsmanna að heilsufarsþjónustu og -upplýsingum og jafnframt að fækka veikindadögum," segir Katrín Dóra og bætir við að með skipulagðri skráningu heilsufarsupplýsinga geti sérfræðingar InPro bent á þætti sem hugsanlega megi betur fara til þess að bæta heilsu og vellíðan starfsmanna Norðlenska.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook