Fréttir

Norðlenska gerir styrktarsamning við yngriflokkastarf KA í knattspyrnu

Á 80 ára afmæli Knattspyrnufélags Akureyrar í gær var skrifað undir samstarfssamning Norðlenska og yngriflokkaráðs KA í knattspyrnu. Samningurinn er til þriggja ára.

Á komandi sumri munu iðkendur yngri flokka KA í knattspyrnu fá nýja búninga og verður Norðlenska með auglýsingu á baki þeirra. Einnig verður Norðlenska með auglýsingu á brjósti vindjakka sem allir iðkendur yngri flokka fá að gjöf fyrir næsta sumar, en gera má ráð fyrir að iðkendur sumarið 2008 verði á bilinu 350-400.

Ingvar Már Gíslason, markaðsstjóri Norðlenska, segir að fyrirtækið hafi lengi styrkt barna- og unglingastarf í íþróttum, þar á meðal í Knattspyrnufélagi Akureyrar. "Við höfum stutt við yngriflokkastarfið í knattspyrnunni hjá KA og viljum gera það áfram. Þar er unnið gott starf í þágu barna og unglinga og við viljum eftir mætti styðja við það," segir Ingvar Már.

Óskar Þór Halldórsson, formaður yngriflokkaráðs KA, segir mikinn feng fyrir yngriflokkastarfið að fá stuðning jafn öflugs fyrirtækis og Norðlenska. "Norðlenska hefur í gegnum tíðina lagt okkur lið með myndarlegum hætti og ég fagna því að fyrirtækið sjái sér hag í því að gera það áfram með því að gera þennan saming við okkur til næstu þriggja ára. Það skiptir hreinlega sköpum í rekstri yngriflokkastarfsins að fá góðan stuðning úr atvinnulífinu. Ég vil þakka Norðlenska fyrir þann velvilja sem fyrirtækið hefur sýnt í gegnum tíðina og sýnir enn og aftur í verki með þessum nýja samningi," segir Óskar Þór Halldórsson, formaður yngriflokkaráðs KA í knattspyrnu.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook