Fréttir

Norðlenska styður við bakið á Þór og KA við framkvæmd knattspyrnumóta

Sem fyrr er Norðlenska aðalstyrktaraðili Goðamóta Íþróttafélagsins Þórs í knattspyrnu, en mótin eru haldin í Boganum og eru fyrir 4. og 5. flokk kvenna og 5. og 6. flokk karla. Í öllum þessum mótum er spilaður 7 manna fótbolti. Fyrsta mótið í ár var haldið um síðustu helgi og voru um 430 stúlkur skráðar til leiks og nutu þess að spila fótbolta.

Næsta Goðamót ársins verður haldið um aðra helgi, en þá mæta um 450 strákar í 5. aldursflokki til leiks, og þriðja og síðasta mótið verður síðustu helgina í mars þegar á fimmta hundrað strákar í sjötta aldursflokki sýna snilli sína.
Sigurjón Magnússon, sem er í framvarðarsveitinni við skipulagningu Goðamótanna, segir að ætla megi að keppendur á þessum mótum í ár séu nálægt 1400 talsins. Við bætast síðan fast að 300 fararstjórar og þjálfarar. “Ef foreldrar og aðrir aðstandendur eru síðan með taldir áætlum við að um þrjú þúsund manns komi í bæinn í tengslum við þessi mót. Það er engin spurning í mínum huga að hagsmunir bæjarfélagsins af þessu mótahaldi eru mjög miklir – í verslun og fjölþættri þjónustu,” segir Sigurjón.
Þetta er fimmta árið sem Goðamótin eru haldin og er óhætt að segja að þau hafi fest sig í sessi. Sigurjón segir að frá upphafi hafi Norðlenska stutt myndarlega við mótahaldið. “Á sínum tíma bárum við þessa hugmynd undir forráðamenn Norðlenska og þeir “keyptu” hans strax. Samstarfið við Norðlenska hefur alltaf verið mjög gott, við erum virkilega ánægðir með það,” segir Sigurjón, en fyrir rösku ári var gerður þriggja ára samstarfssamningur Norðlenska við Þór um Goðamótin.

Knattspyrnufélag Akureyrar stendur einnig fyrir knattspyrnumótum fyrir yngri flokka yfir vetrarmánuðina. Um miðjan febrúar var svokallað Jóns Spretts mót fyrir þriðja aldursflokk karla og núna um helgina er komið að Greifamóti KA í fjórða aldursflokki. Þriðja mótið er dagsmót, sem verður fyrsta laugardaginn í maí fyrir yngstu aldurshópana.
Fyrrnefndu tvö mótin eru fyrir ellefu manna knattspyrnu. Tíu lið voru á Jóns Spretts mótinu og sextán lið af öllu landinu á Greifamótinu. Í síðarnefnda mótinu taka þátt um 270 keppendur, fararstjórar og þjálfarar.
Norðlenska hefur einnig lagt KA lið við framkvæmd þessara móta og verið þannig eitt af stuðningsfyrirtækjunum við þau.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook