Fréttir

Nýtt fréttabréf komið út

Nýtt fréttabréf er komið út og hefur verið dreift til bænda. Í fréttabréfinu eru ýmsar gagnlegar upplýsingar fyrir bændur varðandi sláturtíðina - t.d. heimtöku kjöts, slátursölu, niðurröðun sláturfjár o.fl. Einnig eru viðtöl við Árna Magnússon, fjármálastjóra, Jónu Jónsdóttur, starfsmannastjóra og Björn Steingrímsson, gæðastjóra ásamt ýmsu öðru efni.

Í fréttabréfinu skrifar Sigmundur E. Ófeigsson, grein um verðlagningu sauðfjárafurða 2008. Greinin er eftirfarandi: 

"Norðlenska hefur jafnan verið fyrst sláturleyfishafa til að birta verðskrá sauðfjárafurða og hefur fyrirtækið lagt áherslu á að gefa hana út tímanlega fyrir sláturtíð ár hvert. Við höfum einnig leitast við að haga útkomu fréttabréfs þannig að við gætum birt verðskrá í því. Því miður hafa forsendur fyrir birtingu verðskrár,  svo sem útflutningshlutfall o.fl. legið æ seinna fyrir. Þar að auki virðist sem margir sláturleyfishafar vilji ekki ríða á vaðið með birtingu verðskrár og er því svo komið að bændur fá ekki verðskrár frá nokkrum sláturleyfishöfum fyrr en slátrun er hafin.

Norðlenska reið á vaðið í ár með útgáfu verðskrár 13. ágúst sl. á heimasíðu félagsins. Þá tókum við fram að Norðlenska myndi gera breytingar á verðskránni til samræmis við verðskrár annarra sláturleyfishafa ef þörf væri á, enda greiðum við okkar innleggjendum að sjálfsögðu ekki lakara verð en aðrir sláturleyfishafar greiða.

Því miður varð Norðlenska fyrir mikilli og ómaklegri gagnrýni forráðamanna bænda vegna þeirrar verðskrár sem við birtum 13. ágúst sl.  

Í kjölfar þess að Norðlenska gaf út verðskrá birtu aðrir sláturleyfishafar verðskrár og undir lok ágúst var sem uppboðsmarkaður væri á nýjum verðskrám sláturleyfishafa.

Á síðustu dögum hefur umræðan þróast í þá veru að stilla sláturleyfishöfum upp sem andstæðingum bænda.  Þessi neikvæða umræða er til þess fallin að rýra það traust sem ríkt hefur milli afurðastöðva og bænda og þar með rýra eignir bænda, sem margir eiga þessar afurðastöðvar. Hagsmunir afurðastöðva og bænda fara algerlega saman.

Ný verðskrá Norðlenska fyrir sauðfjárafurðir hefur verið birt á heimsíðu félagsins - http://www.nordlenska.is/ -  og þar má sjá öll okkar verð fyrir innlagðar kjötafurðir. Annars vegar er þar verðskrá fyrir þá innleggjendur sem hafa viðskiptasamninga við Norðlenska og hins vegar verðskrá fyrir þá innleggjendur sem ekki hafa viðskiptasamninga við fyrirtækið. Við endurskoðun verðskrár var það okkar niðurstaða að þeir innleggjendur sem hafa viðskiptasamninga við Norðlenska og eru eigendur félagsins nytu meiri hækkana á sínar afurðir. Hækkun meðalverðs til innleggjenda sem hafa viðskiptasamninga við Norðlenska er 18,6% frá fyrra ári og 16,6% til þeirra innleggjenda sem ekki eru með viðskiptasamninga við Norðlenska.

Undanfarin ár höfum við birt verðskrá fyrir sauðfjárafurðir í fréttabréfi.  Það gerum við ekki nú.  Eins og mál hafa þróast er fréttabréf ekki vettvangur fyrir slíkar tilkynningar, sem eins og dæmin sanna geta tekið fyrirvaralausum breytingum.  Við munum því í framtíðinni birta verðskrá okkar á heimasíðu félagsins. Einnig geta innleggjendur hringt á skrifstofu félagsins og fengið upplýsingar um verð eða fengið verðskrá senda heim.

Því miður er rekstrarumhverfi sláturleyfishafa mjög erfitt um þessar mundir, eins og annarra fyrirtækja í landinu.  Öll innflutt aðföng hafa hækkað mikið, flutningskostnaður hefur sömuleiðis hækkað, launaskrið hefur verið nokkuð, að ekki sé minnst á kostnað við fjármagn, en vextir á lán hafa algerlega farið úr böndunum. Í þessu sambandi má nefna að vaxtaendurgreiðsla ríkisins vegna uppgjörs við sauðfjárbændur dugar nú aðeins fyrir u.þ.b. tæpum helmingi þeirra vaxta sem afurðalán sauðfjárbirgða ber. Það er því ljóst að óhjákvæmilegt er að verðhækkun á dilkakjöti fari út í verðlagið.

Það er mat stjórnenda Norðlenska að hækkanir á verði dilkakjöts til neytenda geti haft þau áhrif að neysla þess dragist saman. Það er áhyggjuefni því að á næsta ári leggst útflutningsskylda dilkakjöts af, sem gæti leitt til verulegs offramboðs þess á innanlandsmarkaði og alvarlegs ástands á kjötmarkaði."

 

Nýtt fréttabréf Norðlenska má sjá hér


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook