Fréttir

Páskaveðrið ræður miklu um kjötneyslu

“Það má segja að veðrið sé afgerandi þáttur um hverskonar kjöt landsmenn vilja um páskana. Ef veðrið er sérlega gott og vor í lofti hefst grillvertíðin gjarnan um páskana, en ef veður er frekar slæmt er reynslan sú að hangikjötið selst vel. Við þurfum að búa okkur undir hvorttveggja,” segir Sigmundur Hreiðarsson, vinnslustjóri Norðlenska á Húsavík.

Auk undirbúnings fyrir páskana er á þessum tíma árs undirbúningur á fullu fyrir sumarið hjá Norðlenska á Húsavík, þar sem áherslan er meðal annars á grillkjötið. Sigmundur segir mikilvægt að huga vel að vöruþróun í grillkjötinu og fylgja vel eftir straumum og stefnum í þeim efnum. Hann segir að fólk vilji í minna mæli sterkkryddað grillkjöt, æ fleiri kjósi minna saltað kjöt og raunar hafi þróunin verið í þá átt að neytendur vilji í auknum mæli geta keypt ferskt kjöt í kjötborðunum og kryddað það að vild.

Um 50 manns starfa á þessum tíma árs hjá Norðlenska á Húsavík – í úrbeiningu, pökkun, kryddun, forsteikingu o.fl. Sigmundur segir að úrbeiningin hafi aukist umtalsvert, æ fleiri neytendur vilji fá kjötið án beina.

Umtalsverð aukning hefur orðið í sölu á framleiðsluvörum Norðlenska til mötuneyta – fyrirtækja og stofnana – um allt land. “Þessi aukning hefur orðið núna á einu til tveimur árum og er verulega mikil,” segir Sigmundur og bætir við að á sama tíma og samdráttur hafi orðið í sölu á lambakjöti í landinu hafi Norðlenska verið að auka sölu lambakjöts. “Þetta gefur til kynna að neytendur eru ánægðir með okkar framleiðsluvörur og það er gleðilegt fyrir okkur og er okkur hvatning um að gera enn betur,” segir Sigmundur.

Af um 50 starfsmönnum á Húsavík eru 12 erlendir starfsmenn, þar af 11 Pólverjar. Nokkrir þeirra stefna, að sögn Sigmundar, að því að setjast að á Húsavík. Nýlega lauk starfstengdu íslenskunámskeiði fyrir þessa starfsmenn, sem stóð í átta vikur, tvisvar í viku. Sigmundur segir að námskeiðið hafi tekist frábærlega vel og Pólverjarnir hafi bætt íslenskukunnáttu sína verulega.

 


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook