Fréttir

Ráðningar starfsfólks fyrir sauðfjárslátrun í haust á lokasprettinum

Nú er langt komið með að ráða starfsfólk í sauðfjárslátrun Norðlenska á Húsavík og Höfn í haust. Við það er miðað að ljúka ráðningum starfsmanna á Húsavík í lok júlí og Höfn í kringum 20. ágúst. Sláturtíðin hefst á Húsavík 27. ágúst og stendur til 23. október. Á Höfn hefst slátrun 21. september og lýkur 30. október.

Jóna Jónsdóttir, starfsmannastjóri Norðlenska, segir að byrjað hafi verið að ráða starfsfólk í sauðfjárslátrun félagsins í apríl sl. "Ráðningar fóru hægt af stað, en úr því rættist síðan," segir hún. "Við byrjuðum á því að setja inn tilkynningar hjá Vinnumálastofnun, en þegar þær skiluðu fáum umsóknum var auglýst í staðarmiðlum og Bændablaðinu. Einnig auglýstum við eftir starfsfólki hjá Evrópsku vinnumiðluninni. Þessar auglýsingar skiluðu tilætluðum árangri, við fengum fjölda umsókna og nú er svo komið að við erum langt komin með að manna bæði sláturhúsin," segir Jóna og bætir við að hlutfall erlendra starfsmanna Norðlenska við slátrun muni lækka eitthvað frá því sem verið hefur undanfarin ár, en þó ekki eins mikið og búist hefði mátt við í ljósi mikils atvinnuleysis hér á landi.

Sem fyrr segir er gert ráð fyrir að ljúka ráðningum starfsmanna í sláturhús Norðlenska á Húsavík síðustu dagana í júlí, en í kringum 20. ágúst fyrir sláturhúsið á Höfn. Leitast verður við að svara öllum formlegum umsóknum.

"Við höfum því sem næst lokið ráðningum starfsfólks á Húsavík, en ef við hins vegar fáum umsóknir frá vönu fólki munum við að sjálfsögðu skoða þær," segir Jóna. Af  95 starfsmönnum sem búið er að ráða fyrir sláturtíðina á Húsavík eru 63 erlendir starfsmenn. Flestir koma þeir frá Svíþjóð, en einnig koma margir starfsmenn frá Slóvakíu og Póllandi.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook