Fréttir

Velta Norðlenska svipuð og 2008

Sigmundur Ófeigsson
Sigmundur Ófeigsson

Árið 2009 var Norðlenska afar erfitt. Reksturinn var heldur verri en áætlanir gerðu ráð fyrir og er fyrirtækið gert upp með rúmlega 78 milljóna króna tapi. Þetta kom fram í máli Sigmundar Ófeigssonar framkvæmdastjóra á aðalfundi fyrirtækisins.

Velta Norðlenska í fyrra var um 3,7 milljarðar, ámóta og árið á undan. Hagnaður fyrir afskriftir, vexti og skatta (EBITDA) var 208 milljónir en óhagstæð gengisþróun og háir vextir af skammtímalánum hafa komið illa við fyrirtækið eins og mörg önnur.

„Veltan var um 1% meiri en árið áður og framlegðarprósentan lægri. Þetta er því sölusamdráttur ef tekið er tillit til verðlags en okkur tókst að bregðast við honum með verulegu aðhaldi í öllum rekstri. Nánast allir rekstrarliðir lækkuðu, fjárfestingar voru í algeru lágmarki og er málum háttað þannig að ekki á að vera mikil fjárfestingaþörf í Norðlenska næstu þrjú ár að minnsta kosti,“ segir Sigmundur.

Erlend lán eru bróðurpartur langtímalána Norðlenska, en skammtímalánin eru innlend. Gengistap á erlendum lánum var 34,7 milljónir króna á árinu og eiginfjárstaða fyrirtækisins er orðin neikvæð um 76 milljónir króna, um 3%. Ársverkin hjá Norðlenska voru 185 á árinu 2009. Um 700 framleiðendur leggja inn afurðir hjá félaginu sem fyrr. Norðlenska keypti kjöt af þeim fyrir um 1400 milljónir króna á síðasta ári og til viðbótar keypti félagið kjöt fyrir um 330 milljónir. Í það heila keypti Norðlenska því afurðir fyrir 1730 milljónir króna á árinu.

Offramleiðsla og mikil fákeppni

Framkvæmdastjórinn nefndi tvo rekstrarliði sem hækkuðu verulega og höfðu afgerandi áhrif á rekstrarniðurstöðu; hráefnisverð og húsaleigu. „Því miður er það þannig að ekki hefur tekist að koma nauðsynlegum verðhækkunum á kjöti út í verðlagið, m.a. vegna offramleiðslu á kjöti sem og mikillar fákeppni á smásölumarkaði. Að auki voru fjármagnsliðir mun verri en áætlanir gerðu ráð fyrir en íslenska krónan varð mun veikari en Seðlabanki hafði spáð. Einnig má segja að þjóðfélagsaðstæður séu vægast sagt erfiðar og ekki til þess fallnar að auka neyslu.“

Sigmundur segir Norðlenska hafa staðið við allar skuldbindingar og afborgunum lána hafi ekki verið frestað. Þó hafi verið unnið að lengingum lána í ár. „Stjórnendur eru í viðræðum við viðskiptabanka félagsins um að fá færðar niður langtímaskuldir félagsins á svipaðan hátt og gert hefur verið hjá helstu samkeppnisaðilum félagsins. Niðurstaða í því máli kemur væntanlega í ljós á næstu vikum eða mánuðum.“

Bændur í öllum greinum eiga samleið

Sigmundur nefndi í ræðu sinni að fyrirtækið væri vel tækjum búið, samskipti við bændur framúrskarandi og starfsfólkið væri mjög hæft. „Þessir þættir skapa félaginu tækifæri umfram aðra þó svo að tímabundið ástand fjármálamarkaða skekki allan rekstur. Engu að síður er afar mikilvægt að bændur standi vörð um eignarhald sitt á Norðlenska og helst þyrftu þeir að eignast fleiri slík fyrirtæki hér á landi. Það er nauðsynlegt að bændur í öllum búgreinum finni sér samleið og samstarf til að vera samkeppnisfærir við innflutning og ESB. Stækkun eininga með uppkaupum og/eða sameiningum er greininni og þar með bændum nauðsynleg.“

Sigmundur sagði sameiningu geta skilað mikilli hagræðingu, greinin yrði þar með markaðshæfari og betur í stakk búin til að keppa við innflutning. „Stærri og öflugri fyrirtæki skapa betri samkeppnishæfni við innflutning. Vonandi er sú þróun sem náðist um Norðlenska, upphafið að víðtækara samstarfi íslenkra framleiðenda.“

Skipulagning næstu sauðfjársláturtíðar er hafin fyrir all nokkru. „Verðlagning sauðfjárafurða er einn af veigamestu áhrifaþáttum rekstrar Norðlenska og munum við verða að bregðast við þar, því við verðlagningu síðastliðins árs ásamt afnámi útflutningsskyldu varð til mikill vandi í greininni þar sem mikil offramleiðsla er í gangi – nærri 3.500 tonn á ári – og sauðfé er um 50% af tekjum Norðlenska. Ef framlegð lækkar á lambakjöti þá hefur það mikil áhrif á reksturinn.“

Heiðrún nýr formaður 

Nýr formaður stjórnar Norðlenska er Heiðrún Jónsdóttir en hún var áður meðstjórnandi. Auður Finnbogadóttir, sem verið hefur formaður, gekk úr stjórn en í hennar stað kom Sigríður Elín Sigfúsdóttir. Áfram sitja í stjórninni Ingvi Stefánsson, varaformaður, Geir Árdal, ritari og Aðalsteinn Jónsson, meðstjórnandi.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook