Fréttir

Sauðburður gengur vel þrátt fyrir kuldatíð

"Eftir því sem ég heyri hjá bændum virðist sauðburðurinn hafa almennt gengið nokkuð vel. Frjósemin virðist vera góð. Hins vegar er ljóst að þessi seinkun á vorkomunni dregur úr vexti lambanna," segir Ari Teitsson, bóndi á Hrísum í Reykjadal og framkvæmdastjóri Búsældar.

Ari segir að almennt hafi frjósemi sauðfjár verið að aukast á síðustu árum, sem megi annars vegar rekja til markvissari ræktunar og einnig hafi rúllutæknin í heyskapnum gert það að verkum að gæði fóðursins séu mun jafnari en hér áður fyrr. "Á sumum bæjum er sauðburði lokið, en annars staðar er hann vart nema rétt ríflega hálfnaður," segir Ari.

Rúmgóð hús eru lykilatriði

"Í mörg undanfarin ár hefur maímánuður verið kaldur, þannig að þetta er ekkert nýtt. Hins vegar hefur þróunin verið sú á allra síðustu árum að seinnihluti maímánaðar er kaldari en fyrri hluti mánaðarins. Um helmingur af okkar ám bar um mánaðamótin apríl-maí og ég hygg að það hafi ekki borið ær hjá mér síðan 17 maí. Eins og er eru átta ær óbornar," segir Aðalsteinn Jónsson, bóndi í Klausturseli.
"Það er lykilatriði í svona kuldatíð að hafa nóg húsrými. Við hýstum allt fé í nótt, hér var snjór á jörðu í morgun. Lambærnar sem báru snemma hafa verið úti, við höfum haft þær í hólfum með skýlum," sagði Aðalsteinn og bætti við að hann vissi ekki betur en að á hans svæði væru bændur þokkalega settir með hey. Í það minnsta vissi hann ekki af neinum heyflutningum á svæðinu.
Hjá Aðalsteini og fjölskyldu í Klausturseli bera um 340 ær og 60 gemlingar.  Einnig rekur hann 300 kinda fjárbú í Vaðbrekku á móti öðrum bónda. Það er því í mörg horn að líta á þessum tíma árs.
Frjósemin í fjárstofninum í Klausturseli verður að teljast sérlega mikill. Aðalsteinn segir að eftir fjárskiptin árið 1990 hafi hann fengið fé af Ströndum, úr Reykhólasveit og Öræfum og síðan hafi hann markvisst verið að rækta upp stofn þar sem hann leggur áherslu á að ærnar séu frjósamar og mjólki vel.  "Þetta eru að mínu mati grundvallaratriði í fjárbúskapnum," segir Aðalsteinn. Til marks um það verða því sem næst allar ær í Klausturseli í sumar með tvö lömb - um 20 voru þrílembdar og 10 fjórlembdar. Í það heila reiknar Aðalsteinn með að um 760 lömb úr Klausturseli verði í úthaga í sumar.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook