Fréttir

Sígur á seinni hlutann í haustsláturtíðinni

"Maður þakkar fyrir hvern dag sem veðrið er svona gott. Það auðveldar allt," segir Sigmundur Hreiðarsson, vinnslustjóri Norðlenska á Húsavík, en eftir daginn í dag verður búið að slátra um 61 þúsund fjár á Húsavík.

"Tíðarfarið í haust hefur verið okkur hagstætt og það hjálpar mikið. Fyrir vikið hefur flutningurinn á sláturfénu gengið mjög vel," segir Sigmundur.
Síðastliðinn miðvikudag var slátrað rösklega 2.100 fjár á Húsavík, sem er mesti fjöldi sláturfjár á einum degi í haust, og í dag verður einnig slátrað fast að 2.100 fjár.
Á Húsavík er í dag verið að slátra dilkum víða að  - t.d. úr Fnjóskadal, af Austurlandi og utan- og innaverðum Eyjafirði. "Þetta er allt á áætlun hjá okkur og það er ánægjulegt að kjötgæðin eru áberandi meiri en áður," sagði Sigmundur. Fallþungi eftir að búið var að slátra 53.500 dilkum var 15,46 kg, sem er meiri fallþungi en í fyrra.

"Þetta hefur gengið vel síðustu daga. Þessi vika er sú stærsta hjá okkur til þessa, eða um 5.400 dilkar. Í dag erum við að taka fé víða að - vestan úr Álftaveri og hér úr nágrenninu," segir Einar Karlsson, sláturhússtjóri á Höfn, en slátrun er meira en hálfnuð þar. Eftri daginn í dag verður búið að slátra um 19.400 fjár á Höfn og þá má ætla að eftir séu á bilinu 12 til 13 þúsund fjár. "Við gerum ráð fyrir að okkar áætlun gangi eftir með að síðasti dagur haustslátrunar verði 31. október," segir Einar.

Í dag er síðasti dagur slátursölu í Hrísalundi á Akureyri og sömuleiðis í sláturhúsinu á Húsavík. Sigmundur segir að núna undir lokin hafi verið mikil "gusa" í slátursölunni. "Það fara um 500 slátur frá okkur til Akureyrar í dag. Fólk nýtir helgarnar til sláturgerðar," segir hann og bætir við að trúlega sé slátursalan eilítið minni í ár en í fyrra.
Á Höfn lýkur slátursölu að viku liðinni. 


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook