Fréttir

Slátursala hefst í Hrísalundi á Akureyri föstudaginn 14. september

Sala sláturs frá Norðlenska hefst í verslun Samkaupa-Úrvals við Hrísalund á Akureyri föstudaginn 14. september nk. Á Húsavík hefst slátursala föstudaginn 21. september.

Þrátt fyrir pizzuvæðinguna í þjóðfélaginu heldur velli hinn rammíslenski siður að taka slátur. Sigmundur Hreiðarsson, vinnslustjóri Norðlenska á Húsavík, segir að undanfarin ár hafi verið prýðileg slátursala og engin ástæða sé til að ætla annað en að hún verði góð í ár. Slátursala er eins og gengur betri á einum stað en öðrum. Sigmundur nefnir að á Dalvík sé áberandi mikil slátursala, þar sé greinilega rík hefð fyrir því að taka slátur.

Það verður sem sagt byrjað að selja slátur í verslun Samkaupa-Úrvals á Akureyri í næstu viku, 14. september, og viku síðar, föstudaginn 21. september, hefst hún í sláturhúsi Norðlenska á Húsavík og þar mun hún standa í þrjár vikur. Einnig verður slátursala í verslun Samkaupa-Úrvals á Egilsstöðum og þá verður slátur til afhendingar í verslun Samkaupa-Úrvals á Dalvík. Í kjölfar þess að haustsláturtíð hefst á Höfn síðar í mánuðinum hefst slátursala þar.

Eins og komið hefur fram hófst slátrun Norðlenska í síðustu viku á Húsavík. Eins og lög gera ráð fyrir fór sláturtíðin frekar rólega af stað fyrstu dagana. Sigmundur Hreiðarsson segir að í þessari viku hafi gengið eilítið verr að fylla upp í töluna en búist hafði verið við. Göngur eru ekki afstaðnar nema á tiltölulega fáum svæðum og því er fé almennt ekki komið heim. Þessa dagana eru verið að ganga og um komandi helgi verður víða réttað. Sigmundur segir því ljóst að frá og með næsta mánudegi verði allt komið á fullt í slátruninni á Húsavík.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook