Fréttir

„Verður erfitt að toppa þessa sláturtíð“

Sláturtíð hefur ekki í annan tíma gengið betur en í haust, að sögn Sigmundar Hreiðarssonar stöðvarstjóra Norðlenska á Húsavík. Þar á bæ var slátrað 72.439 lömbum og 4.795 fullorðum ám, alls 200 fleiri en í fyrra. Þess má og geta til gamans að Grímur á Rauðá kom með 13 geitur til slátrunar. 

Meðalvigt í sláturhúsinu á Húsavík í haust var 16,11 kg, 30 grömmum meira en í fyrra en á Höfn var meðalþyngdin 15,30 kg, 70 gr. meira en síðasta haust.  Fita er örlítið meiri en árið 2008 á Húsavík en heldur minni á Höfn en árið áður. Kjötgerð lækkaði aðeins á Húsavík frá fyrra ári en var nánast sú sama á Höfn.

„Ég held það verði erfitt að toppa þessa sláturtíð,“ segir Sigmundur Hreiðarsson, stöðvarstjóri Norðlenska á Húsavík. „Akstur gekk afburða vel og mjög lítið var um að fé dræpist í flutningum. Það ber helst að þakka þeim sem vinna við flutningana hjá Reyni í Brekku og Sigga á Mælivöllum.“ 

Sigmundur segir að verkun hafi aldrei gengið eins vel. „Einn daginn voru tveir skrokkar af 1.500 gallaðir, sem er aðeins 0,13%. Læri á öðrum var skemmt en hinn bógrifinn. Það er langt síðan við höfum haft viðlíka mannskap við slátrunina, það á reyndar ekki bara við hvað verkun varðar, því við munum ekki eftir eins litlum veikindum í sláturtíð og það er ekki lítils virði.“

Sigmundur vill koma á framfæri þakkir til allra starfsmanna sem að sláturtíðinni komu. „Það er erfitt að taka einhver sérstök nöfn út úr til að þakka sérstaklega og því segi ég eins og sagt er í boltanum; það eru lið sem vinna titla en ekki einstaklingarnir.“


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook