Fréttir

Söluaukning í nóvember

Í nýliðnum mánuði varð all nokkur aukning í sölu framleiðsluvara Norðlenska, miðað við sama mánuð í fyrra, en ekki liggja fyrir skýrslur frá öllum framleiðendum um heildar kjötsölu í mánuðinum. "Við finnum að við erum að auka okkar markaðshlutdeild og styrkja stöðu okkar á nýjum mörkuðum," segir Sigmundur E. Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska.

Frá október 2006 til og með september 2007 - þ.e. á tólf mánaða tímabili - varð 7% söluaukning á kjöti - bæði rauðu og hvítu - á landinu. Aukningin varð öllu meiri framan af ári, en úr henni hefur eilítið dregið eftir sem liðið hefur á árið, sem kann að skýrast að nokkru leyti af því að erlendum verkamönnum við stórframkvæmdir á Austurlandi, svo dæmi sé tekið, hefur verið að fækka á síðustu mánuðum.

"Við höfum tilfinningu fyrir því að tvær meginástæður séu fyrir aukinni sölu á kjöti. Í fyrsta lagi hefur neytendum fjölgað umtalsvert - ekki síst vegna erlends vinnuafls í landinu - og í annan stað teljum við að fólk sé að gera betur við sig í mat en áður. Aukning er fyrst og fremst í alifuglakjöti og nautakjöti. Nautakjöt hefur vantað á markaðinn á síðustu misserum, en nú er að skapast bærilegt jafnvægi á þeim markaði á nýjan leik. Á tólf mánaða tímabili, frá október 2006 til október 2007, er aukningin 17% í alifuglakjöti og 12% í nautakjöti. Á sama tíma er samdráttur í sölu lambakjöts sem nemur tæpum 4%, sem óneitanlega er áhyggjuefni. Í svínakjötinu hefur aukningin á þessu tímabili verið um 7%. Þar hefur framboðið rétt náð að mæta eftirspurninni."
Sigmundur nefnir einnig sem skýringu á aukinni neyslu á kjöti að kjötúrval hafi verið að aukast mjög áberandi á síðustu tveimur til þremur árum. Vöruþróun hafi skilað meira úrvali vörutegunda, sem aftur skili sér í aukinni neyslu.
"Í það heila má segja að hafi tekist að ná nokkuð góðu jafnvægi milli þeirrar söluaukningar sem hefur orðið á kjötmarkaði og framleiðsluaukningar. Þó er lambakjötið þar undantekning. Við kunnum ekki skýringar á því af hverju sala á því hefur dregist saman. Framan af ári var mjög góð sala á lambakjöti, en þó svo að mikil sala hafi verið á grillkjöti á höfuðborgarsvæðinu sl. sumar verður að hafa það í huga að það eru eru ekki margir partar af lambinu sem unnt er að grilla," segir Sigmundur E. Ófeigsson.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook