Fréttir

Stefnir í góða meðalvigt á Húsavík

Það stefnir í mun meiri meðalþunga dilka úr haustslátrun Norðlenska á Húsavík en í fyrra. Eftir að búið var að slátra þar um 46 þúsund dilkum var meðalvigtin 16,09 kg. Léttari dilkarnir skila sér í sláturhús síðustu daga sláturtíðarinnar og því er ljóst að meðalvigtin mun lækka frá því sem hún stendur nú í, en engu að síður verður hún mun meiri en í fyrra þegar hún var 15,21 kg.

Sigmundur Hreiðarsson, vinnslustjóri á Húsaavík, áætlar að meðalþungi dilka á Húsavík gæti endað í 15,7-15,8 kg. Gangi það eftir er þyngdaraukningin milli ára að meðaltali um 600 grömm á dilk - með öðrum orðum um 50 tonnum meira af kjöti en sl. haust.

Sigmundur segir að þegar á heildina sé litið hafi sláturtíðin gengið afburða vel. „Við höldum okkur við upphaflega áætlun að ljúka slátrun föstudaginn 24. október," sagði Sigmundur en eftir daginn í dag verður búið að slátra um 57 þúsund dilkum. „Kjötgæðin hafa aukist verulega, sem gefur m.a. til kynna framfarir í ræktun. Þá hefur verkunin hjá okkur í slátruninni aldrei verið betri. Undanfarna daga hafa verkunargallar ekki farið yfir eitt prósent og í gær voru þeir aðeins 0,43%, sem er afburða gott. Af 1854 dilkum sem var lógað í gær komu einungis fram verkunargallar á 8 dilkum. Þetta er frábær árangur og segir allt sem segja þarf um afburða gott starfsfólk við slátrunina," segir Sigmundur.

Síðasti slátursöludagur Norðlenska á Húsavík er í dag, föstudaginn 10. október, og sömuleiðis er dagurinn í dag síðasti afhendingardagur sláturs í Samkaupum við Hrísalund á Akureyri.

Eins og búast mátti við í þeim miklu efnahagsþrengingum sem þjóðin glímir nú við hefur orðið mjög mikil aukning í sölu á slátrum. Það segir sína sögu að í dag verða afhent um 700 slátur í Hrísalundi á Akureyri.

„Eftir daginn í dag höfum við lokið við að slátra um 15.500 dilkum og þar með er haustslátrunin rétt hálfnuð," segir Einar Karlsson, sláturhússtjóri Norðlenska á Höfn. "Við munum ljúka slátrun hér 31. október, þ.e. að við eigum eftir fimmtán daga af sláturtíðinni," bætir Einar við. Framan af sláturtíðinni gekk heldur treglega að fá dilka til slátrunar vegna erfiðs tíðarfars. Úr því hefur ræst síðustu daga, en engu að síður hefur verið óvenju mikið votviðri á Suðausturlandi í haust. "Við erum vanir því hér að það rigni mikið, en við eigum ekki að venjast því gríðarlega úrhelli sem við höfum fengið á okkur dag eftir dag í haust. Bændur hafa átt í erfiðleikum með að ná kartöflum í hús því þeir hafa ekki getað farið um garða sína vegna bleytu," segir Einar.

Eins og annars staðar hefur slátursala gengið vel á Höfn. Hún mun halda áfram frameftir mánuðinum.

 


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook