Fréttir

Þorravertíðin að fara í fullan gang

Þorrinn nálgast með tilheyrandi þjóðlegum mat. Bóndadagur, sem markar upphaf þorra, verður föstudaginn 23. janúar nk. Margir taka reyndar forskot á sæluna og geta ekki beðið eftir að ná sér í bita af súrum hrútspungum og lundaböggum. Eggert H. Sigmundsson, vinnslustjóri Norðlenska, segir að reikna megi með að þessi vika og sú næsta verði stærstu vikurnar í dreifingu á þorramat til verslana. 

"Við byrjuðum að sjóða niður í súr strax í september og undirbúa okkur fyrir þorrann. Fyrir jólin fór frá okkur súrmatur í fötum út í búðir, en þunginn í sölunni er vitaskuld núna á þorranum. Þetta fer allt á fullt í þessari og næstu viku," segir Eggert og bætir við að Norðlenska framleiði svipað magn af þorramat núna og á sama tíma í fyrra. "Við mátum það svo að gera mætti ráð fyrir svipaðri neyslu á þorramat núna og í fyrra."

Eggert segir að sem fyrr sé mest ásókn í súra hrútspunga og sviðasultu. "Til viðbótar við súra matinn seljum við mikið af sviðum, hangikjöti, nýrri sviðasultu og ýmsu öðru. Þessi þjóðlegi og góði matur verður örugglega jafn vinsæll og undanfarin ár. Við sáum það á jólasölunni okkar að fólk vill íslenskan mat um þessar mundir," segir Eggert, en þorramaturinn frá Norðlenska er seldur um allt land og reyndar ratar hann einnig út fyrir landssteinana, á þorrablót Íslendingafélaga.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook