Fréttir

Þorravertíðin í fullan gang

Bóndadagurinn, 25. janúar, markar upphaf þorra. Norðlenska hefur af kostgæfni undirbúið þorrann undanfarna mánuði og er gert ráð fyrir enn meiri sölu á þorramat en í fyrra.

"Strax í ágúst og september hefst undirbúningur þorravertíðarinnar hjá okkur með því að setja allan þann mat í súr sem þarf að vera tilbúinn fyrir þorrann. Þetta eru til dæmis hrútspungar, lundabaggar, bringur, lifrarpylsa, blóðmör og sviðasultan," segir Eggert H. Sigmundsson, vinnslustjóri Norðlenska á Akureyri.
"Það er lítið um breytingar í þessari vinnslu frá ári til árs. Þetta er matur með ríka hefð og viðskiptavinir okkar hafa verið mjög ánægðir með þorramatinn hjá okkur. Við framleiðum eilítið meira af þorramat í ár en í fyrra til þess að mæta mikilli eftirspurn," segir Eggert og bætir við að hrútspungarnir og sviðasultan njóti mestra vinsælda af súrmatnum.

Þorratrogið hjá Norðlenska er afar fjölbreytt. Auk súrmatarins er að sjálfsögðu boðið upp á sviðasultu, hangikjötið er vitanlega á sínum stað og svo mætti áfram telja. "Í raun framleiðum við hér allt í þorratrogið nema hákarlinn og harðfiskinn," segir Eggert, en þorramaturinn frá Norðlenska fer um allt land og raunar einnig út fyrir landsteinana, því Íslendingafélagið í Danmörku fær þorramatinn frá Norðlenska á sitt árlega þorrablót.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook