Fréttir

Útflutningsmál - Umræða á villigötum

Frá opnun Marel úrbeiningarlínu á Húsavík í ágúst 2002. Opnun línunnar markaði tímamót í úrbeiningu á fersku lambakjöti til USA
Frá opnun Marel úrbeiningarlínu á Húsavík í ágúst 2002. Opnun línunnar markaði tímamót í úrbeiningu á fersku lambakjöti til USA
Að undanförnu hefur verið mikil umræða um útflutning á lambakjöti og þá sérstaklega um útflutning til Bandaríkjanna og um Áform átaksverkefni. Páll Magnússon, varaþingmaður og aðstoðarmaður iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefur meðal annars farið mikinn í gagnrýni sinni á útflutning til Bandaríkjanna á heimasíðu sinni og í fjölmiðlum svo ekki verður hjá komist fyrir Norðlenska að svara gagnrýni hans og leiðrétta nokkrar rangfærslur.

Að undanförnu hefur verið mikil umræða um útflutning á lambakjöti og þá sérstaklega um útflutning til Bandaríkjanna og um Áform átaksverkefni.  Páll Magnússon, varaþingmaður og aðstoðarmaður iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefur meðal annars farið mikinn í gagnrýni sinni á útflutning til Bandaríkjanna á heimasíðu sinni og í fjölmiðlum svo ekki verður hjá komist fyrir Norðlenska að svara gagnrýni hans og leiðrétta nokkrar rangfærslur.  Í upphafi skal geta þess að Páll Magnússon hefur aldrei leitað til Norðlenska til að fá tölulegar staðreyndir staðfestar né fengið upplýsingar frá útflytjandanum sjálfum um markaðssetningu í Bandaríkjunum.  Slíkt verður að teljast undarlegt. Í raun er málflutningur hans einkennilegur og ekki ljóst hver tilgangur varaþingmannsins er nema þá helst að koma höggi á norðlenskan iðnað og norðlenska sauðfjárbændur.  Það er eðlileg krafa til einstaklings í hans stöðu að upplýsinga sé aflað á málefnalegum grundvelli hjá öllum aðilum áður en gagnrýni af slíkum toga er sett fram. 

 

Útflutningur til Bandaríkjanna

Norðlenska hefur komið að verkefni um útflutning til Bandaríkjanna frá upphafi, í fyrstu í gegnum Goða þar sem Kjötiðjan á Húsavík sá um framleiðslu á afurðum á Bandaríkjamarkað og síðar að fullum krafti eftir kaup Norðlenska á Goða.  Farið var af stað með átaksverkefni um markaðssetningu á íslensku lambakjöti með það fyrir augum að finna markað sem greiðir hátt verð fyrir íslenska lambakjötið og að afurðirnar væru fullunnar, en nær allur útflutningur var í heilum skrokkum fram að þeim tíma.  Sá markaður fannst í Bandaríkjunum í gegnum Whole Foods verslanirnar.  Áform átaksverkefni sá um að koma á þeim viðskiptatengslum sem eru í dag og hafa Áform staðið sig með miklum sóma í að viðhalda þeim tengslum þrátt fyrir öll þau áföll sem dunið hafa á greininni innanlands sem og erlendis.  Í upphafi var verkefnið smátt og aðeins var boðið upp á íslenskt lambakjöt í 9 verslunum árið 1998, frá þeim tíma hefur náðst umtalsverður árangur sem kristallaðist í því að afurðir úr íslenska lambinu voru á boðstólnum í um 90 verslunum á síðasta sölutímabili í mislangan tíma frá september til desember.  Síðasta ár var jafnframt fyrsta árið sem ferskt lambakjöt var flutt á markað í gámum.  Útflutt magn á síðasta ári af fersku lambakjöti unnið í afurðir tilbúnar í kjötborð Whole Foods verslananna var net 80.117kg, brúttó um 84.500kg.  Þær tölur eru staðfestar úr sölukerfi Norðlenska og fyrirliggjandi tollskýrslum.  Verulegur árangur náðist á síðasta ári sem felst í því að útflutt magn var nánast tvöfaldað. Verðmæti vörunnar er það hæsta sem þekkist í útflutningi á lambakjöti, þrátt fyrir að gengi dollars hafi verið óhagstætt og í raun í sögulegu lágmarki. 
Í þeirri gagnrýni sem fram hefur komið er talað um 56 tonn af fersku lambakjöti og alveg ljóst að tölum Norðlenska og Hagstofunnar  bar ekki saman.  Undanfarna daga hafa starfsmenn Norðlenska og nú Hagstofunnar unnið að því að finna út hvar villan hefur myndast.  Í þeirri gagnrýni sem fram hefur komið hefur aðeins verið spurt hver sé að gefa upp rangar tölur og með því að falsa gögn í stað þess að reyna að finna lausn á vandanum og leysa hann.    Nú þegar hefur fundist tollskýrsla í tollakerfi sem var óafgreidd vegna innra ósamræmis.  Sú skýrsla veldur ósamræmi í útflutningstölum árið 2003.  Athugasemd um slíkt hefur var send þjónustuaðila Norðlenska sem sér um skjalagerð fyrir fyrirtækið.

 

Ígildiskíló ¿ raunkíló

Í umræðunni um útflutning á lambakjöti má ekki gleymast að sláturleyfishafar eru háðir útflutningsskyldu.  Það hlutfall er ákveðið árlega af landbúnaðarráðherra. Á síðasta ári var útflutningshlutfall þegar hæst var 38%.  Þegar ráðist er í útflutning á lambakjöti er það gert á þeim grunni að auka  verðmæti sauðfjárafurða fyrir alla þá sem í greininni starfa.  Mikilvægt er að ásættanlegt verð fáist og það fæst ekki með útflutningi á heilum frosnum skrokkum, það er margreynt.  Á síðasta ári var kvóti Íslands inn á markaði í Evrópu fylltur, því skiptir Bandaríkjamarkaður verulegu máli.  Unnið er að því að fá Evrópukvótann aukinn.  Á undanförnum árum hefur mikið áunnist í útflutningi, hvort sem litið er til Bandaríkjanna, Danmerkur eða Ítalíu, en á þessa þrjá markaði er lögð áhersla á að flytja út mikið unna vöru.  Á sama tíma hefur verð lækkað í Færeyjum þar sem nánast eingöngu er flutt út frosið lambakjöt.  Ástæðan fyrir samdrætti í Færeyjum er meðal annars aukin samkeppni íslenskra fyrirtækja og áhrif frá öðrum löndum. 
Útflutningur er úrræði greinarinnar sem leitast við að koma á jafnvægi á íslenska markaðnum, því framleiðsla er um 2000 tonnum meiri en innanlandsneysla.  Útflutningsskylda Norðlenska fyrir árið 2003 er 371 tonn.  Til þess að
gera sér grein fyrir hvernig útflutningur stendur á hverjum tímapunkti verða þeir sem taka þátt í umræðunni að skilja hugtakið ígildiskíló.  ¿Ígildiskíló¿ er reiknað út frá verðmæti þess hráefnis sem verið er að vinna, að teknu tilliti til rýrnunar  vörunnar.  Eftir því sem varan er unnin meira, þeim mun verðmætari er varan.  Til einföldunar: Til að vinna 80 tonn af fullunninni vöru fyrir Bandaríkjamarkað á síðasta ári þurfti 184 tonn af skrokkum.  Norðlenska leggur metnað sinn í að flytja út mikið unna vöru sem fer beint á neytendamarkað.  Áherslan er ekki á útflutning á frosið lambakjöt í heilum skrokkum.

Á árinu 2003 flutti Norðlenska eins og áður sagði um 80 tonn á Bandaríkjamarkað.  Þar sem um mikið unna vöru er að ræða samsvarar það magn um 184 ígildistonnum.  Ígildiskíló eru nauðsynlegar upplýsingar fyrir sláturleyfishafa og aðra þá sem starfa í sauðfjárrækt og/eða landbúnaði og skilja uppbyggingu kerfisins.  Sú fullyrðing að ígildiskíló komi útflutningi ekkert við lýsir vankunnáttu viðkomandi á útflutningi á lambakjöti. Ígildiskíló segja til um hversu mikið magn eftir er að flytja úr landi og gefur sláturleyfishöfum mynd af útflutningsstöðu. Hitt er allt annað mál að verðmætin liggja í raunkílóunum.

 

Markaðurinn

Þeir sem þekkja vel til markaðssetningar á vöru eða þjónustu vita að það er ekki eftirsóknarvert að setja öll eggin í eina körfu.  Norðlenska og aðrir sláturleyfishafar með útflutningsleyfi eru að vinna á heimsmarkaði og eru í beinni samkeppni við stærstu framleiðendur heims á lambakjöti eins og Nýja-Sjáland og Ástralíu.  Íslendingar ná ekki að framleiða 1% af því magni sem þessi lönd framleiða.  Það er því afar mikilvægt fyrir íslenska útflytjendur að mynda sér sérstöðu á markaði, hvort sem það er með gæðum vörunnar og bragði eða með markaðssetningu.  Nákvæmlega sú leið var valin í samstarfi við Áform og miðar sú markaðssetning að því að fá sem mest verðmæti út úr vörunni  og skilja þau verðmæti eftir á Íslandi, styðja íslenskan iðnað.  Sú leið sem valin var til markaðssetningar byggði á fagþekkingu Áforma og hefur Norðlenska komið beint að markaðssetningu meðal annars með vörukynningum í verslunum á sölutímabilinu ásamt því að styðja við hugmyndina um persónulega markaðssetningu.  Norðlenska útvegar allt það kjöt sem notað er í vörukynningar í verslunum.  Hugmyndafræðin felst í því að minnka útflutning á heilum frosnum skrokkum sem heimsmarkaður borgar minnst fyrir líkt og sjá má af tölulegum staðreyndum hér að neðan.  Úr þeim tölum má lesa að verðmæti útfluttra afurða á Bandaríkin er með því lang hæsta sem þekkist hér á landi, því hljóta stjórnvöld að fagna og verður það að teljast góður árangur af markaðssetningu. 

Viðskiptaland

Magn (t)

Verðmæti (milljónum)

Meðalverð (kr./kg)

Bandaríkin

80*

55

687

Bretland

571

119

208

Danmörk

313

103

327

Frakkland

0,024

0,009

393

Færeyjar

444

139

312

Grænland

26

6

240

Holland

0,040

0,006

158

Ítalía

442

150

340

Japan

33

6

186

Lúxemborg

0,069

0,050

741

Noregur

321

95

279

Svíþjóð

31

13

423

Samtals

2.261

686

303

* Samkvæmt tollskýrslum og sölutölum Norðlenska

 

Vonir standa því til að enn frekari verðmæti náist út úr útflutningi á Bandaríkin næstu ár.  Samstarf Norðlenska, Áforms og Whole Foods er byggt á traustum grunni þar sem aðilar eiga í viðskiptum og stunda eðlilega viðskiptahætti.  Whole Foods gerir miklar kröfur til gæða, aðbúnaðar í sláturhúsum og styður sjálfbæran búskap á litlum fjölskyldubúum.  Norðlenska er jafn háð Whole Foods og Whole Foods er háð Norðlenska.  Meðan fyrir hendi er spurn eftir íslensku lambakjöti og meðan íslenskir útflytjendur standast þær kröfur sem til þeirra eru gerðar þarf ekki að óttast að sölu lambakjöts verði hætt með einu pennastriki.  Að halda slíkt er mikil vanþekking á kaupanda lambakjöts í Bandaríkjunum.  Það er undir okkur sjálfum komið hvernig til tekst.

 

 

Umræðan

Það skýtur skökku við að mati Norðlenska að iðnaðarráðherra og aðstoðarmaður hans skuli gagnrýna iðnað með þessum hætti.  Norðlenska hefur lagt í miklar fjárfestingar til þess að geta tekist á við útflutning á fersku kjöti.  Til að mynda  hefur verið fjárfest í fullkomnum úrbeiningarlínum framleiddum af íslenska iðnfyrirtækinu Marel.  Þessar fjárfestingar ásamt fleirum hafa miðað að því að gera útflutning á lambakjöti arðbæran, fyrir útflytjendur, bændur og þjóðfélagið í heild.  Eins og fram hefur komið hér að ofan er verðmæti útflutnings til Bandaríkjanna  um 55 milljónir króna, af þeirri tölu eru vinnulaun, greiðslur til starfsmanna, um 19 milljónir.  Norðlenska mun halda áfram að vinna að útflutningi til Bandaríkjanna  í samstarfi við Áform enda ríkir mikill áhugi og ánægja með öll samskipti  er lúta að verkefninu.  Sameiginlegt markmið allra þeirra sem að verkefninu koma er að geta greitt hærra verð fyrir þær afurðir sem lagðar eru inn til sláturleyfishafa til útflutnings og að fjármunum til útflutningverkefna á lambakjöti fyrir sláturleyfishafa verði stýrt í einn farveg.  Með því safnast saman á einn stað þekking og reynsla sem þjónar hagsmunum heildarinnar best.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook