Fréttir

Váleg tíðindi fyrir afurðastöðvar og framleiðendur

„Þetta er gríðarleg opnun á markaði og það gefst ekki langur tími til undirbúnings," segir Sigmundur Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska, í viðtali við Bændablaðið, sem kemur út í dag, um hugmyndir Einars Kr. Guðfinnssonar landbúnaðarráðherra þess efnis að leyfa frjálsan innflutning á kjöti. Í viðtalinu við Bændablaðið segir Sigmundur að honum lítist ekki á blikuna og bendir á að hvergi á landinu sé jafn öflug starfsemi tengd úrvinnslu landbúnaðarafurða og á Norður- og Austurlandi.  Gera megi ráð fyrir að um 32000 störf tengist framleiðslu af því tagi og þau séu í hættu, verði innflutningur á kjöti frjáls.

Sigmundur segir að strangar reglur gildi á Íslandi um kjötframleiðslu og lagt hafi verið út í kostnaðarsamar breytingar til að uppfylla öll skilyrði.  Eins bendir hann á að hér á landi hafi mönnum tekist að útrýma sjúkdómum eins og til að mynda kamfýlóbakter.  Hið sama gildi ekki um öll önnur nágrannalanda okkar.  „Ef fram fer sem horfir munum við keppa við slíkar afurðir í nánustu framtíð," segir Sigmundur og líst ekki alls kostar á.  Hann nefnir að um 30% af veltu Norðlenska sé vegna framleiðslu á svínakjöti.

Sigmundur bendir á að verslunin hafi skilarétt á kjötvörum, því kjöt sem ekki selst í verslununum  er skilað til kjötvinnslanna  aftur.  Hann segir að gera megi ráð fyrir að verslunin muni sjálf flytja inn kjöt, verði innflutningur gefinn frjáls,  „og þá gerum við okkur ekki neinar vonir um að okkar vörur verði settar í öndvegi, þeim verður ekki stillt upp á áberandi stöðum, auðvitað vill verslunin selja sína vöru og þá sem hún hefur ekki skilarétt á."

Sigmundur segir hugmyndir ráðherra um frjálsan innflutning á kjöti váleg tíðindi fyrir afurðastöðvar og framleiðendur.  „Þetta er í raun ekki annað en aðför að   afurðastöðvunum, bændum og samfélaginu á Norður og Austurlandi í heild sinni," segir hann. 

Sigmundur segir að Akureyri sé eitt stærsta sveitarfélag landsins sem byggi að stórum hluta á matvælavinnslu. Þar séu tvö af stærstu fyrirtækjum landsins í úrvinnslu landbúnaðarafurða staðsett.  „Við erum hvergi höfð með í ráðum, þessu er bara slengt framan í okkur, mér líst satt best að segja ekki á blikuna."

Bendir Sigmundur á að um 200 manns starfi hjá Norðlenska og þá séu innleggjendur ríflega 700 talsins.  Þá eru ótalin störf sem tengjast starfsemi Kjarnafæðis svo og afleidd störf.  Áætla megi að yfir 3000 störf á Norður- og Austurlandi tengist beint úrvinnslu landbúnaðarafurða og matvælaframleiðslu og áætla megi að 500 til 1000 störf séu í afleiddum greinum. „Það er óskaplega erfitt við það að eiga þegar stjórnvöld taka krampakenndar ákvarðanir af þessu tagi, ákvarðanir sem hafa í för með sér að allt fer á annan endann.  Ef þessar hugmyndir ráðherra ná fram að ganga munu þær hafa gríðarleg áhrif hér í bænum," segir Sigmundur.

Hann bendir á söguna, eitt sinn hafi Akureyri verið einn helsti iðnaðarbær landsins, en í kjölfar þess að tollar voru felldir niður, m.a. af skóm, fatnaði og húsgögnum sem framleidd voru í bænum hafi  allt farið niður á við, framleiðslunni hætt og við tekið innflutttur varningur.  „Við hættum að búa til skó og fatnað hér á Akureyri, nú eru  þessar vörur fluttar inn og kosta tugum prósenta meira en í Evrópu," segir hann.  Þá hafi Akureyri eitt sinn verið öflugasti útgerðarbær landsins, en svo sé vart lengur en aðgerðir vegna niðurskurðar í kvóta hafi komið hart niður á bæjarfélaginu.

Nú sé spjótum beint að landbúnaði, „það er ekkert bæjarfélag í landinu jafn öflugt í úrvinnslu landbúnaðarafurða og Akureyri og því líst mér engan vegin á stöðuna, nái hugmyndirnar fram að ganga verður ástandið skelfilegt.  Ég held að það sé engin ástæða til bjartsýni."

Þá segir Sigmundur það afar einkennilegt að ráðamenn þjóðarinnar leggi svo mikla áherslu á að opna landamæri landsins fyrir innflutningi á meðan aðrar þjóðir beiti öllum tiltækum ráðum til að takmarka eða hefta innflutning til sinna landa og beiti til þess aðgangshindrunum af ýmsu tagi óhikað þó svo að í orði eigi að heita að innflutningur sé frjáls.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook