Fréttir

Vegna umræðu um unnar kjötvörur

Ingvar Már Gíslason og Sigurgeir Höskuldsson.
Ingvar Már Gíslason og Sigurgeir Höskuldsson.
Undanfarna daga hefur borið þó nokkuð á umræðu um unnar kjötvörur í skólamötuneytum Reykjavíkurborgar.  Síðastliðinn sunnudag birtist ágætis grein í Morgunblaðinu undir yfirskriftinni Pottur víða brotinn þar sem rætt var við þær Margréti Gylfadóttur, Sigurrós Pálsdóttur og Sigurveigu Káradóttur.

 

 

Norðlenska hefur um árabil þjónustað og framleitt kjötvörur fyrir mötuneytismarkað og meðal viðskiptavina er Reykjavíkurborg. Af greininni má lesa að öll framleiðslufyrirtæki eru sett undir einn hatt og innihaldslýsingar eins eða fárra fyrirtækja gerðar að innihaldslýsingu starfsgreinarinnar.

 

Í umræðunni hafa einnig komið fram fullyrðingar sem ekki eiga við rök að styðjast í það minnsta hvað varðar Norðlenska. Fyrst skal nefna að fram kom í greininni að haft hafi verið samband við alla birgja Reykjavíkurborgar. Ekki  var haft samband við starfsfólk Norðlenska, hvorki fyrir né eftir birtingu greinarinnar.

 

Í greininni sjálfri og í útvarpsviðtölum er talað um innihaldslýsingar sem samanstanda af mörgum kjöttegundum og tekið fram að uppistaðan í mörgum farsvörum sé trippakjöt og jafnvel reykt trippakjöt og kindakjöt. Þessar lýsingar eiga alls ekki við innihaldslýsingar á kjötvörum Norðlenska. Innihaldslýsingar á kjötbollum, sviknum héra, bjúgum og kjúklinganöggum sem finna má í greininni eru ekki innihaldslýsingar á kjötvörum Norðlenska. Norðlenska framleiðir sem dæmi 4 tegundir af kjötbollum, engin þeirra vara hefur að geyma trippakjöt hvað þá að það sé reykt. Kjötinnihaldið samanstendur af óunnu kjöti.

 

Af kjötbollutegundum Norðlenska, hafa Sænskar kjötbollur verið oftast  á matseðli hjá Reykjavíkurborg og má sjá innihaldslýsinguna hér að neðan:

 

Sænskar kjötbollur frá Norðlenska: Grísa og lambakjöt  (75%), vatn, laukur, raspur (hveiti, ger, salt), sojaprótein, kartöflusterkja, jurtaolía, sykur, salt, bindiefni E451. Prótein 15g, Kolvetni 9g, Fita 14g, Natríum 0,5g. Orka: 926 kJ/ 222 kkal.

 

Norðlenska sérframleiðir einnig skólabjúgu fyrir mötuneyti. Innihald þeirra samanstendur af grísakjöti (75%), vatni, kartöflumjöli, salti, laukdufti, kryddi, bindiefni E451, þráavörn E300, rotvarnarefni E250. Eins og sjá má inniheldur varan aðeins eina kjöttegund, grísakjöt og skal það tekið fram að eingöngu er notað óunnið grísakjöt. Í samanburði við önnur bjúgu sem framleidd eru hjá Norðlenska eru Skólabjúgun bæði með lægra fituinnihald og saltminni.

 

  Skólabjúgu Kindabjúgu
Prótein 11 11
Kolvetni 8 7
Fita 12 17
Natríum 0,7 0,8
     
Orka 767 kJ/ 184 kkal 935 kJ/ 225 kkal
 

Norðlenska hefur undanfarin ár  lagt mikla áherslu á að bæta gæði skólamáltíða í góðu samstarfi við þau fyrirtæki sem eru í viðskiptum við Norðlenska, þar má nefna Reykjavíkurborg og Skólamat ehf.  Þessi vinna hefur verið leidd af gæðastjóra fyrirtækisins sem er menntaður matvælafræðingur, að auki starfar hjá Norðlenska fjöldinn allur af fagmenntuðu fólki.  Árangur þessarar  vinnu má sjá í innihaldslýsingum á vörum fyrirtækisins.

Norðlenska hafði forgöngu um það, fyrst framleiðenda, að taka MSG úr vörum sínum og í framhaldinu var unnið markvisst að því að taka mjólkuróþolsefni úr vörum fyrirtækisins.  Í dag eru allar vörur Norðlenska án MSG og mjólkuróþolsefni eru aðeins í fáeinum vöruliðum, t.d. lifrarpylsu og vörum sem innihalda ost. Þá hefur hveiti verið tekið úr öllum uppskriftum nema lifrarpylsu. Sumar vörur innihalda þó brauðrasp sem inniheldur m.a. hveiti.

Að auki hefur verið unnið markvisst að því að minnka salt í vörum. Vörur eins og grísabuff með grænmeti,  hakkabuff, ávaxtafyllt lambakjöt og grænmetisbuff  hafa litið dagsins ljós í vöruþróunardeild fyrirtækisins. Dæmi um vörur sem hafa fengið góðar móttökur eru Goða lifrakæfur en þær eru án mjókurpróteina, hveitis, sojapróteina, MSG og er saltmagn í lágmarki.

Þegar kemur að jafn mikilvægum hlut og börnunum okkar er afar mikilvægt að umræðan sé vönduð og byggð á gögnum og rökum. Matseðlar sem unnir eru af forsvarsmönnum mötuneyta eru í mörgum tilfellum mjög vandaðir og uppbyggðir með þarfir þeirra sem neyta í huga.

Rétt samsetning fæðu einstaklinga yfir daginn eða jafnvel vikuna er það sem skiptir aðalmáli og ætti að vera að leiðarljósi við samsetningu matseðla en ekki einstakar vörur. 

Að lokum má geta þess að síðastliðið skólaár er þriðjungur af innkaupum Reykjavíkurborgar frá Norðlenska hreint kjöt, s.s. lambaframpartar úrbeinaðir, lambagúllas, súpukjöt og nautakjöt.  Annar þriðjungur viðskiptanna eru lítt unnar vörur, s.s. slátur, lambahjörtu, lambalifur, lasagna, grænmetisbuff og hakkabuff.   Síðasti þriðjungurinn er reykt kjöt og meira unnið kjöt, t.d. hangikjöt og hamborgarhryggur fyrir jól, bjúgu og naggavörur.   

Virðingarfyllst,

Ingvar Már Gíslason markaðsstjóri og Sigurgeir Höskuldsson gæðastjóri Norðlenska ehf.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook