Fréttir

Verð Norðlenska fyrir innlagðar sauðfjárafurðir haustið 2011

Verðskrá Norðlenska yfir innlagðar sauðfjárafurðir haustið 2011, sem birt er í dag á heimasíðu félagsins, tekur tillit til sjónarmiða bæði almennings og bænda.

Ákveðið var að verðleggja alfarið eftir nýjum verðhlutfallagrunni sem Landsamtök sauðfjárbænda samþykktu á aðalfundi.

Verð til bænda fyrir dilkakjöt hækkar hóflega og fyrir kjöt af fullorðnu fé hækkar verð umtalsvert. Verðskrá Norðlenska er fyllilega samkeppnishæf við verð þess sláturleyfishafa sem þegar hefur birt skrá yfir verð til bænda. Norðlenska mun greiða bændum samkeppnishæft verð og því kann verðskrá að breytast ef tilefni verður til.

Nú er einungis um eina verðskrá að ræða hjá Norðlenska. Sama verð er til þeirra sem eru með viðskiptasamninga og annarra sem vilja slátra og kynnast fyrirtækinu.

Um sláturfyrirkomulag og greiðslukjör

Forslátrun hefst á Húsavík í viku 33 (15. til 19. ágúst), þó með fyrirvara um að sláturloforð berist. Ekki verður slátrað með fullum afköstum á Húsavík fyrr en í fyrstu heilu viku september.

Forslátrun hefst einnig á Höfn í viku 33 (15. til 19. ágúst), þó með fyrirvara um að sláturloforð berist. Haustslátrun hefst síðan með fullum afköstum á Höfn þann 20. september.

Boðið er upp á forslátrun jafn snemma og raun ber vitni vegna mikillar eftirspurnar og sölu á  lambakjöti. Landssamtök sauðfjárbænda hvetja bændur til þess að mæta eftirspurn með þessum hætti, sbr. frétt hér á heimasíðunni í gær.

Álagsgreiðslur Norðlenska á grunnverð verða 15% í viku 33 (15. til 19. ágúst) auk þess sem Markaðsráð kindakjöts mun þá greiða 2.000 kr. fyrir hvert lamb beint til bænda, á alla gæðaflokka lambakjöts.

Í viku 34 (22. til 26. ágúst) verða álagsgreiðslur Norðlenska 14% á grunnverð og beingreiðsla Markaðsráðsins 1.500 krónur til bænda. 

 

Frá og með viku 35 (29. ágúst til 2. september) er í gildi verðskrá Norðlenska sem birt er hér á heimasíðunni. Þá er álag Norðlenska á grunnverðið 12%. Þá viku verður beingreiðsla Markaðsráðs kindakjöts 500 kr. fyrir hvert lamb, en fellur niður eftir það.

Bændur eru hvattir til að hafa samband við Norðlenska vegna þessa.

Þeim sem áhuga hafa á forslátrun er bent á að hafa samband við Sigmund á Húsavík (sími 840 8888) og Einar á Höfn (sími 840 8870).

Greiðslufyrirkomulag verður eins og á fyrra ári. Greitt verðu fyrir 80% innleggs næsta föstudag eftir sláturviku og 20% lokauppgjör  fyrir innlegg í september þann 11. nóvember, og 20% lokauppgjör fyrir innlegg í október þann 12. desember.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook