Fréttir

Verðlaunaðir fyrir afburða sveinsprófsverkefni

Grétar Þór Björnsson og Róbert Ragnar Skarphéðinsson,.
Grétar Þór Björnsson og Róbert Ragnar Skarphéðinsson,.
Tveir nýsveinar í kjötiðn, Grétar Þór Björnsson og Grétar Mar Axelsson, voru verðlaunaðir fyrir afburða vel unnin sveinsprófsverkefni, á verðlaunahátíð Iðnaðarmannafélagsins á dögunum. Grétar Þór, sem fékk silfurverðlaun, lærði hjá Norðlenska á Húsavík og Grétar Mar, sem hlaut brons, lærði hjá Norðlenska á Akureyri.

Verðlaunin sem sveinarnir frá Norðlenska fengu voru þau einu sem veitt voru í flokki kjötiðnaðar að þessu sinni, og er fyrirtækið mjög stolt af því að þau skyldu bæði falla sveinum frá Norðlenska í skaut. Það ber vott um að þeir sem kenna verklega kjötiðn sinni nemum sínum af alúð, en ekki spillti fyrir að báðir nýsveinarnir voru mjög virkir og áhugasamir á námstímanum.

Grétar Þór Björnsson fékk silfurverðlaun, sem fyrr segir. Meistarinn hans var Róbert Ragnar Skarphéðinsson, kjötiðnaðarmeistari hjá Norðlenska á Húsavík.

Meistari Grétars Mar Axelssonar, sem fékk bronsverðlaunin, var Jón Knútsson, kjötiðnaðarmeistari hjá Norðlenska á Akureyri.

Mynd af Grétari Mar má sjá hér - með honum á myndinni er Eggert Sigmundsson, vinnslustjóri Norðlenska á Akureyri en Jón Knútsson átti ekki heimangengt.

Þetta var sjötta verðlaunahátíð IMFR til heiðurs nýsveinum sem lokið hafa sveinsprófi með afburðaárangri. Á hátíðinni voru 23 nýsveinar úr 10 iðngreinum, frá 8 verkmenntaskólum á landsvísu heiðraðir.

Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík, sem var stofnað 3. febrúar 1867, er þriðja elsta starfandi félag á Íslandi. Þetta 145 ára félag er enn í fullu fjöri og leggur sem fyrr áherslu á að efla og styrkja samheldni meðal iðnaðarmanna, stuðla að framförum og efla menntun. Félagið tekur virkan þátt norrænu samstarfi iðnaðarmannafélaga og á aðild að rekstri Tækniskólans og Verkiðn.

Verðlaunahátíðin er hornsteinn í starfi félagsins. Það er metnaður þess að umgjörðin sé glæsileg og að enginn vafi leiki á að verðlaunahafar verðskuldi sýndan sóma. Hátíðin er fyrst og fremst til heiðurs nýsveinum og iðngreinunum í landinu, sagði í boðsbréfi til verðlaunahafa.

Fleiri myndir frá verðlaunahátíðinni má sjá hér

Vert er að benda þeim á, sem hafa áhuga á að komast á nemasamning hjá Norðlenska, að fyrirtækið getur bætt við 1-2 nemum, bæði á Akureyri og Húsavík. Nánari upplýsingar gefur Jóna Jónsdóttir starfsmannastjóri, jona@nordlenska.is, eða í síma 460-8805.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook