Fréttir

Verðskrá fyrir sauðfjárafurðir árið 2008

Norðlenska birtir nú verðskrá fyrir sauðfjárafurðir haustið 2008. Í megin dráttum eru breytingar á verðskránni frá fyrra ári þær að allir kjötflokkar hækka um 15% og greiðslur á kjöti til útflutnings hækka um tæp 29%. Ef þörf krefur mun Norðlenska breyta verðskrá sinni til samræmis við verðskrá annarra stórra sláturleyfishafa.

 

Það hefur vafist nokkuð fyrir okkur stjórnendum Norðlenska að gefa út verðskrá fyrir sauðfjárafurðir þetta árið.

Miklar sviptingar í fjármálaumhverfi skapa okkur mikla óvissu. Vextir á allt fjármagn eru í hæstu hæðum og hafa mikil áhrif á rekstur allra fyrirtækja.  Í þessu sambandi skal þess getið að vaxtabætur sem afurðastöðvar fá og eiga að standa undir sauðfjárafurðalánum ná til einungis hluta þeirra vaxta sem afurðalán bera í dag. Þetta er mikil breyting frá fyrri árum þegar vaxtabætur stóðu undir nánast öllum vaxtakostnaði.

Norðlenska er hóflega skuldsett og í nokkuð góðri stöðu til að kljást við þessar aðstæður þó vissulega komi þær við reksturinn. Það er ljóst að þau fyrirtæki sem eru með mikil lán áhvílandi eiga erfiða tíma framundan. Framtíð þeirra er óljós og ekki víst að þeim takist að lifa af við þessar aðstæður. Til lengri tíma mun ekkert fyrirtæki geta höndlað svona vaxtaumhverfi, svo það er brýnt og allra hagur að stuðla að stöðugra rekstrarumhverfi.

Verðskráin, sem við birtum hér, er sú sem við treystum okkur til að standa við án þess að ganga á eða rýra virði Norðlenska. Við höfum skilning á því að bændur þurfi meiri hækkun til að halda í horfinu vegna allra þeirra aðfangahækkana sem þeir hafa þurft að sæta, en við höfum valið að taka ábyrga afstöðu og gæta hagsmuna framleiðenda og um leið eigenda Norðlenska, sem eru bændur, til lengri tíma.

Það liggur fyrir að verðhækkunum til framleiðenda þurfum við að koma út í verðlagið því rekstur Norðlenska getur ekki tekið þær allar á sig. Hækkanir út á markaðinn verða þó að vera hóflegar því annars er hætta á að dilkakjötssala minnki enn frekar, en því miður er sölusamdráttur síðastliðna 12 mánuði upp á tæp 4%.

Hækkanir á sauðfjárafurðum, sem við kynnum hér, eru meiri en hækkanir til svína- og nautakjötsbænda. Svínakjöt hefur hækkað um 16% á síðastliðnum tveimur árum og nautakjöt hækkaði um 6% á síðastliðnu ári og samtals 11% á undanförnum tveimur árum.

Ljóst er að breytt útflutningsskylda, en hún fer úr 16% í 28%, samkvæmt tillögum Markaðsráðs og Bændasamtakanna, sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur staðfest, hefur mikil áhrif á meðalhækkun til framleiðenda, því að jafnaði er lægra verð fyrir útflutningskjöt.

Meiri hækkun á útflutningsverði en innanlandsverði kemur til af því að krónan hefur veikst mikið að undanförnu og útflutningur skilar Norðlenska meiri tekjum en áður. Þó er óvissa um markaði þar sem við drógum úr útflutningi á síðasta ári vegna lægri útflutningsskyldu, en þurfum nú að auka útflutninginn á ný vegna hækkunar á útflutningsskyldu.

Í megin dráttum eru hækkanir á verðskrá sauðfjárafurða eftirfarandi:

- Allir kjötflokkar hækka um 15%.
- Greiðslur á kjöti til útflutnings hækka um tæp 29%.

Rétt er að undirstrika að ef þörf krefur mun Norðlenska breyta verðskrá sinni til samræmis við verðskrá annarra stórra sláturleyfishafa.

Verðskráin miðast við að sama fyrirkomulag verði á vaxta- og geymslugjöldum og áður.

Verðskráin birtist hér að neðan.

Sigmundur E. Ófeigsson,
framkvæmdastjóri Norðlenska.

verlagning_2008_640


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook