Fréttir

Við verðum að nýta landsins gæði!

„Mín tilfinning er sú að fyrir þessi jól verði mikil eftirspurn eftir íslenskum vörum. Það má búast við að þetta verði aðhaldssöm jól, en þó líklega síst í matvælum. Ég veðja á að fólk muni leggja áherslu á neyslu innlendra kjötvara um jólin - íslenska lambið, svín og nautasteikur. Ég held að þetta verði íslensk jól," segir Sigmundur E. Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska, í viðtali í blaði um Akureyri sem fylgir Morgunblaðinu í dag.

Meiri sala í ódýrari kjötvöru?
Sigmundur segir í viðtalinu að í haust hafi neytendur kallað í auknum mæli eftir ódýrari kjötvörum og Norðlenska hafi að sjálfsögðu svarað þessari eftirspurn. „Við merkjum t.d. verulega aukningu í hakki og öðrum ódýrari vörum, en það selst minna af dýrari steikum. Það hefur verið ágætis sala hér innanlands í bæði október og nóvember og einnig hefur verið mikil eftirspurn erlendis frá, enda er hagstætt að kaupa kjötvöru frá Íslandi. Við höfum verið að flytja út til Færeyja, Noregs og Bretlands og sá útflutningur hefur gengið vel."

Grunnatvinnuvegirnir aldrei mikilvægari!
Þá segir Sigmundur í Akureyrarblaðinu með Mogganum að bankahrunið og afleiðingar þess hafi opnað augu almennings fyrir því að rösklega þrjú hundruð og tuttugu þúsund manna þjóð lifi ekki á tómum pappírsviðskiptum. „Við verðum að nýta landsins gæði - í landbúnaði og sjávarútvegi. Augu manna eru að opnast fyrir því að í þessari stöðu er aldrei mikilvægara að hlúa að grunnatvinnuvegunum. Þeir eru ekki baggi á samfélaginu, eins og endalaust hefur verið tönnlast á í þjóðfélagsumræðunni, heldur þvert á móti felast í þessum atvinnugreinum okkar helstu tækifæri. Það skyldu menn hafa í huga," segir Sigmundur og bætir við að flestar þjóðir aðrar en Íslendingar hafi áætlun um matvælaöryggi. „Hvernig hefði staða okkar verið ef við hefðum ekki haft öflugan íslenskan landbúnað í gjaldeyriskreppunni á síðustu vikum? Það væri ástæða fyrir ráðamenn og almenning í landinu að velta þessu fyrir sér í ljósi þess hvað hefur gerst í efnahagsmálum þjóðarinnar að undanförnu," segir Sigmundur.

Hann lætur þess getið að tæplega tvöhundruð starfsmenn séu hjá Norðlenska og auk þess séu innleggjendur hjá fyrirtækinu um 700 talsins. Með öðrum orðum séu hátt í eitt þúsund einstaklingar að fá árslaun sín í gegnum fyrirtækið - fyrir utan afleidd störf.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook