Fréttir

Ánægja með íslensku kræsingarnar

Hugi Einarsson, vélstjóri hjá Norðlenska á Höfn, hélt á dögunum mikla matarveislu á heimili sínu fyrir þá erlendu starfsmenn sem voru hjá fyrirtækinu á Hornafirði í sláturtíðinni. „Hugmyndin var að leyfa fólkinu að smakka dæmigerðan, íslenskan mat, og ekki spillti fyrir  að hann var allur framleiddur af Norðlenska. Þetta tókst mjög vel og gestirnir voru allir rosalega ánægðir. Við höfðum mjög gaman af því hve allir voru þakklátir,“ segir Hugi.

Sláturtíðinni á Höfn lauk í gær en erlendu starfsmennirnir fóru allir af landi brott á föstudag eftir vinnu. „Hugmyndin að matarveislunni kviknaði eftir að ég bauð einum útlendinganna, manni frá Nýja-Sjálandi, heim í sjósiginn fisk, sem hann hafði aldrei smakkað en varð ægilega hrifinn. Eftir þetta athuguðum við hvort erlendu starfsmennirnir okkar hefðu einhvern tíma borðað hangikjöt en enginn hafði gert það,“ segir Hugi.

Hann viðraði hugmynd að matarboði fyrir útlendingana við yfirmenn sína hjá Norðlenska sem tóku henni að sjálfsögðu vel. „Ég fékk send átta kíló af hangikjöti og dreif svo bara í því að halda veislu.“

Hugi bauð reyndar upp á humarpottrétt í tartalettum í forrétt, enda á Hornafirði! „Svo má segja að við höfum haldið jól, með hangikjöti, kartöflum, grænum baunum og öllu tilheyrandi. Gestirnir voru flestir frá Slóvakíu, en líka Danir, Svíar, einn Tékki, Grænlendingur, Ný-Sjálendingurinn og einn Breti. Það eru engar ýkjur að allir voru stórhrifnir af matnum.

Flestir útlendingar hafa komið í nokkur ár og unnið hjá Norðlenska í sláturtíðinni. „Þetta er orðinn vinahópur, maður lítur orðið á allt þetta fólk sem hluta af fjölskyldunni,“ segir Hugi.

Fleiri myndir úr matarveislunni eru í myndasafninu hér á heimasíðunni.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook