Fréttir

Yfirgripsmikil gæða- og heilbrigðisúttekt vegna útflutnings til Bandaríkjanna

Vegna útflutnings lambakjöts frá Norðlenska til Whole Foods verslanakeðjunnar í Bandaríkjunum eru gerðar mjög strangar heilbrigðis- og gæðakröfur til slátrunar og vinnslu Norðlenska á Húsavík. Á dögunum kom fulltrúi bandaríska landbúnaðarráðuneytisins til Húsavíkur til þess að gera úttekt á  sláturhúsi og vinnslu Norðlenska, en slík gæðaúttekt er árleg. Áður hafði Ólafur Oddgeirsson, dýralæknir í Skotlandi, gert samskonar úttekt fyrir hönd Whole Foods hjá Norðlenska á Húsavík. Skemmst er frá því að segja að Norðlenska stenst fyllilega allar þær kröfur sem gerðar eru vegna útflutningsins til Bandaríkjanna.

Vegna útflutnings lambakjöts frá Norðlenska til Whole Foods verslanakeðjunnar í Bandaríkjunum eru gerðar mjög strangar heilbrigðis- og gæðakröfur til slátrunar og vinnslu Norðlenska á Húsavík. Á dögunum kom fulltrúi bandaríska landbúnaðarráðuneytisins til Húsavíkur til þess að gera úttekt á  sláturhúsi og vinnslu Norðlenska, en slík gæðaúttekt er árleg. Áður hafði Ólafur Oddgeirsson, dýralæknir í Skotlandi, gert samskonar úttekt fyrir hönd Whole Foods hjá Norðlenska á Húsavík. Skemmst er frá því að segja að Norðlenska stenst fyllilega allar þær kröfur sem gerðar eru vegna útflutningsins til Bandaríkjanna.

 “Kröfurnar eru mjög strangar,” segir Sigurgeir Höskuldsson, gæða- og vöruþróunarstjóri Norðlenska. “Húsnæðið hjá okkur er tekið út – þrif, viðhald og fleira. Þá er farið nákvæmlega í gegnum slátrunina og vinnsluna, ekki síst úrbeininguna, enda höfum við verið að úrbeina töluvert fyrir Bandaríkjamarkað,” segir Sigurgeir og bætir við að stór liður í eftirlitinu lúti að því að vel fari um féð áður en því er slátrað, rúmt sé um það í fjárréttinni o.s.frv. Hann segir að fylgt sé mjög ströngu gæðakerfi, annars vegar í slátruninni og hins vegar vinnslunni og fylgst sé náið með því að hver og einn starfsmaður fari eftir því því í einu og öllu.

Bárður Guðmundsson, héraðsdýralæknir í Suður-Þingeyjarsýslu, er með reglulega heilbrigðisskoðun hjá Norðlenska á Húsavík og vinnur þannig náið með Sigurgeiri gæðastjóra. Úttekt bandaríska landbúnaðarráðuneytisins og fulltrúa Whole Foods er því í aðra röndina úttekt á að eftirlit Bárðar standist allar kröfur og svo reyndist vera í hvívetna.

“Ég er vitaskuld ánægður með útkomuna,” segir Bárður Guðmundsson. “Ástand á búnaði sláturhúss Norðlenska er almennt mjög gott. Öll slátrun og meðferð á vöru er í góðu lagi. Ég hef átt afar gott samstarf við yfirmenn hér og vil þakka það sérstaklega, en það er lykillinn að því að það hefur tekist að ná svo góðum árangri. Verkstjórn er markviss og starfsfólk er vel upplýst um hvaða þýðingu það hefur að hafa öll gæðamál í lagi og skila góðu verki. Ég hef eftirlit með öllu ferlinu – slátrun og meðferð á vörunni þar til hún fer út úr húsinu. Ég legg mikla áherslu á hreinlæti og að meðferð sé samkvæmt öllum reglum. Það er grundvallaratriði í matvælaframleiðslu eins og hjá Norðlenska að hreinlæti sé í hávegum haft, kæling og frysting sé í góðu lagi og meðferð öll sé fyrsta flokks. Það getur margt farið úrskeiðis í þessari vinnslu, enda koma margar hendur að henni, en óhætt er að segja að hér hafi tekist sérlega vel til. Bandaríkjamennirnir leggja mikið upp úr því að allur búnaður sé fyrsta flokks, verkunin sé góð og innra eftirlitskerfi virki vel. Húsið hér fékk mjög góða dóma frá eftirlitsmönnunum sem hér komu á dögunum og það segir heilmikið um hversu vel er að málum staðið hjá Norðlenska,” segir Bárður.

Auk úttektar á Norðlenska á Húsavík fór annar úttektarmaður frá Whole Foods á nokkur fjárbú á starfssvæði Norðlenska og kynnti sér m.a. hvernig staðið væri að því að reka féð til réttar og upp á fjárbíla.

Þannig má segja að mjög nákvæm úttekt hafi verið gerð á öllu ferlinu – frá lambi í haga þar til kjötið er komið í pakkningar, tilbúið til útflutnings vestur um haf.


Svæði

Norðlenska ehf

Grímseyjargötu
600 Akureyri

s. 469-4500

kt: 500599-2789

upplysingar@nordlenska.is

Póstlistinn

Skráðu þig á póstlistann hjá okkur og fáðu fréttir sendar á netfangið þitt.

Vörumerki Norðlenska

GoðiKEAHúsavíkur kjötBautabúrið

Goði á facebook